Færsluflokkur: Bloggar

Myndir dagsins

S5000047 S5000048 S5000046 Ég hefði átt að gera þetta fyrr í haust, en mér datt í hug að taka mynd út um skrifstofugluggann minn reglulega og sjá breytinguna á gróðri og veðurfari.  Hér koma þær fyrstu, teknar 5. október

50 dagar til jóla

Sá í fréttablaðinu að það væru 50 dagar til jóla.  Ekki er ég farinn að telja.  Erna vann síðustu kvöldvaktina í gær og var nokkuð sæl með það.  Hún hefur unnið talsvert af tvöföldum vöktum undanfarið og er orðin dauðþreytt á því.  Brynja er orðinn varafyrirliði A liðs hjá Þór.  Enginn smá titill!  Hún ætlar að skella sér til Reykjavíkur um næstu helgi með Rakel vinkonu sinni.  Það verður eflaust fín Kringluhelgi hjá þeim.  Rakel Ýr er að fara á handboltamót í Kiruna á næstunni.  Þar keppa einhverjir tugir liða frá Svíþjóð og Noregi.  Kiruna er enn norðar en Luleå, eiginlega lengst norður í rassgati.  Ég er nokkuð upptekinn þessa dagana, margt um að vera hjá öllum kórunum og þar að auki eru stórtónleikar annað kvöld sem ég tek þátt í með því að spila undir hjá flestum sem þar koma fram.  Ég nenni samt eiginlega engu akkurat núna.  Sit og horfi út á Pollinn og óska þess að ég ætti bát og sæti núna í logninu og dottaði í bátnum...

Svona leit Munkinn út í morgunsólinniMunkaþverárstræti 1


Þoka

Mér finnst þokan æðisleg!  Uppáhalds veðrið mitt. Kannski er þetta eitthvað erfðafræðilegt, mamma er jú af ströndunum og þar er nú þokan oft landlæg.  Mér hefur alltaf liðið vel í þoku sérstaklega á fjöllum.  Mér fannst alltaf fínt að vera í rjúpu í svartaþoku eða jafnvel á vélsleðanum þegar maður var unglingur.

Vinnudagurinn hófst hjá mér kl. 6.30 í gær.  Þá fór ég að undirbúa messuna.  Messan var frábær, Sr. Óskar hélt eina af sínum snilldar ræðum, kórinn söng allur og allir voru í stuði.  Eftir messu fengu kirkjugestir sér súpu og brauð í safnaðarsalnum og síðan fór ég á tvo fundi, fyrst hjá undirbúningshópi um kirkjulistaviku 2007 og síðan hjá orgeltónlistarnefnd þjóðkirkjunnar.  Mjög gagnlegur fundur.  Ég kom heim upp úr kl. 16 og þá var Erna að fara í sína vinnu.  Týpískt!  Svona verður þetta þessa viku líka, við hittumst eitthvað lítið held ég.

Fótboltinn fer að byrja aftur hjá Brynju eftir smá hlé.  Hún æfir 4x í viku.  Henni gengur alveg rosalega vel í skólanum, er með 9-10 í öllum prófum.  Hún fór í einn píanótíma hjá þeim í Tónræktinni um daginn, en fann sig ekki í hópkennslunni.  Hún ætlar að ræða aftur við Þórarinn hjá Tónlistarskólanum.  Kannski kemst hún inn í skólann um áramót. 

Það er orðið allt of lagt síðan ég heyrði í Rakel síðast.  Hún er ekki sú duglegasta við að hafa símann á sér.  Erna heyrði í henni í fyrradag og var hún hin hressasta.

Nú þarf ég að undirbúa jarðarför og kóræfingu og reyna að æfa mig eitthvað fyrir tónleika sem ég held um næstu helgi.

EyþórAkureyrarkirkja í morgun


Haust

Haustið er uppáhalds árstíðin mín.  Sennilega eru þetta áhrif úr sveitinni, þar sem öll skemmtilegustu verkin voru haustverkin.  Á haustin byrja líka skólar og kórar og menningarlífið lifnar við á sama tíma og náttúran fölnar.  Það er haustveður hér í dag, lágskýjað og svalt í veðri.  Við höfum tekið því rólega í morgun, Brynja fór reyndar á handboltaæfingu, svona til að prófa það.  Við Erna kúrðum bara heima fram að hádegi en fórum þá í bónerinn að gera stórinnkaup.  Það er best að fara við opnun um helgar, minnst stress þá.  Við erum ekki búin að taka slátur enn þá en stefnum á að gera það um næstu helgi.  Kistan er eiginlega full af mat þannig að við verðum að fara að vera dugleg að elda úr henni.  Borðuðum ýsu í gær, lax í kvöld og svo ætlum við að borða rjúpur á morgun, enda ætlar húsbóndinn sér að ná í 9 rjúpur núna í október og því kominn tími til að klára aflann frá í fyrra.  Gæsaveiðin gekk ekki svo vel á miðvikudag.  Maður verður að reyna einu sinni enn.  Ég var reyndar kominn með 3 gæsir en ég vil gjarnan eiga nokkrar í viðbót í kistunni.  Svo verður maður að koma sér á svartfugl.  Mig vantar bara bát.  Við stefnum á að fara vestur um aðra helgi.  Þá verð ég kominn í sumarfrí.  Tek eina viku sem ég átti inni.  Ég gerði þetta líka í fyrra á sama tíma.  Það var fínt að hlaða aðeins batteríin fyrir aðventu-og jólabrjálæðið.  Það er ekki víst að Erna verði að vinna þá og því getum við e.t.v. átt smá tíma saman.  Svo stefni ég auðvitað á að kíkja á Mása og draga hann með mér í smá rjúpnaveiði.

Eyþór


Loksins heima

Eftir langa og strembna fjarveru að heiman er maður loksins kominn heim.  Dagarnir í Þýskalandi voru frábærir.  Heimferðin þó frekar leiðinleg, fór af stað frá Oppenheim með lest kl 7 að íslenskum tíma á fimmtudag.  Beið í Mainz í dágóðan tíma, þurfti reyndar að kaupa mér hvítar buxur fyrir söng Hymnodiu við afhendingu sjónlistarverðlaunanna daginn eftir.  Ég fór síðan með rútu frá Mainz til Frankfurt Hahn flugvallarins.  Eftir bið þar flaug ég til London Stansted og beið auðvitað þar lengi. Lenti í smá basli með að koma öllu dótinu í gegn um öryggisskoðun, þar sem bakpokinn minn var full stór, en eftir að hafa troðið drasli í alla vasa gekk það upp.  Kom svo heim til ömmu um kl 1 eftir miðnætti og flaug norður með fyrsta flugi morguninn eftir.  Hymnodia söng svo um kvöldið frábæra útsetningu af Blástjörnunni eftir Michael Jón Clarke.  Þessu var sjónvarpað beint á RÚV.  ÉG var að basla við að læra textann á síðustu stundu, enda hafði ég óvart hent nótunum mínum í London þegar ég var að taka til í bakpokanum.  Verkefnin hlóðust upp á meðan ég var úti og núna er vinnutörn.  Reyndar ætla ég að fara á gæs í fyrramálið með Mása.  Verður dásamlegt að liggja í moldarskurði í kulda og rigningu (Þetta er sagt algerlega án kaldhæðni).  Ég fór á gæs daginn áður en ég fór út og það var bara fínt. 

Meiri fjölskyldufréttir síðar,

Eyþór


Dagur 3

Vaknaði lurkum laminn í morgun, kenni lélegu rúmi og miklum æfingum um. Ég æfði í
skólnum frá kl 7 -10  en fór eftir það með rútu til bæjar í nágrenninu og æfði þar
fram yfir hádegið. Það hafa aldrei verið eins margir orgelnemendur í skólanum og nú
og það er slegist um orgelin. Ég fór svo í langan og góðan orgeltíma. í kvöld ætla
ég á tónleika og eftir orgeltímana á morgun ætla ég að eyða síðdeginu með Rakel.

Hej då,
Eyþór


Jæja

Ágúst var mánuður breytinga á íbúðinni okkar.  Eftir tónleikaferð til Reykjavíkur og dásamlega vel heppnaða hálendisferð (hjá Eyþóri og Nonna) ákvað kallinn að taka hæðina í gegn.  Stofurnar, gangurinn og elhúsið var málað og gluggarnir lakkaðir.  Borðstofusettið seldum við og fengum við það pláss sem við höfum ekki séð lengi.  Við vorum eiginlega að kafna í húsgögnum áður.  Við léttum einnig mikið á íbúðinni með því að minnka drasl á veggjum og gólfi.  Við skiptum einnig um ljós og gardínur og núna erum við orðin mjög ánægð með hæðina. 

Tónleikarnir í Hallgrímskirkju gengu ágætlega.  Ákveðin þreyta gerði vart við sig á seinni tónleikunum en eftir vel heppnaða hvíld á fjöllum með pabba er orkan komin til baka.  Við feðgarnir áttum alveg hreint frábæra daga.  Við fórum frá Akureyri í Mývatnssveit og þaðan keyrðum við frá Grænavatni í Suðurárbotna og þaðan í Dyngjufell, þar sem við gistum.  Veðrið var frábært alla dagana.  Næsta morgun fórum við lengra í suður, í gegn um Dyngjufjalladal og inn á Gæsavatnaveginn og fórum svo í Dreka með nokkrum stoppum þó.  Þaðan keyrðum við í Kverkfjöll og gengum á jökulinn.  Útsýnið var frábært og það var gaman að klöngrast um skriðjökulinn.  Við gistum við rætur Dyngjufjalla að austanverðu um nóttina.  Næsta dag ókum við síðan yfir flæðurnar undan Dyngjujökli, yfir Urðarfell (réttnefni) og fórum í Kistufell.  Eftir gæðastund á kamrinum þar héldum við enn lengra í vestu, í Gæsavötn og svo þaðan niður í Eyjafjörð.  Þótt við keyrðum mikið náðum við samt að skoða margt.  Ég fann t.d. gil í Eyjafjarðardrögum með ótrúlegum kynjamyndum í klettum.

Brynja er byrjuð í skólanum sínum og Rakel einnig í sínum skóla í Svíþjóð.  Við vorum alls ekki ánægð með umsjónarkennara Brynju til að byrja með.  Við Erna erum mjög andvíg skoðunum Snorra í Betel en eftir foreldraviðtalið ákváðum við að hann yrði að fá að eiga sínar skoðanir í friði.  Það er alls ekki þar með sagt að hann sé að troða þeim inn á krakkana.  Hann er einnig eflaust góður kennari.  En ég sætti mig aldrei við að hann boði sína öfgafullu trú í bekknum.  Ég er á þeirri skoðun að einn kunningi minn sem nú er látinn gæti verið enn á lífi ef hann hefði ekki verið svo óheppinn að vera samkynhneigður Hvítasunnumaður.  Ekki óheppinn að vera samkynhneigður, heldur þetta tvennt saman.  Og ekki orð um það meir.  Ég einlægur stuðningsmaður þess að samkynhneigð pör sem eru ástfangin og búa saman fái öll réttindi á við gagnkynhneigða, þ.m.t. rétt til að giftast í kirkju og ættleiða börn.  Við höfum lokað augunum allt of lengi fyrir mannréttindabrotum sem samkynhneigðir eru beittir.  Ásamt gömlu fólki. 

Hymnodia tók upp raddir við 13 lög Gunnars Þórðarsonar um síðustu helgi.  Óskar Pétursson er að fara að gefa út plötu með lögum kappans.  Kórinn syngur með í flestum laganna.  Það er margt spennandi framundan hjá kórunum mínum og núna í haust tek ég við kirkjukórnum líka.  Það lítur út fyrir að vera mikið að gera í vetur en jafnframt afar skemmtilegt.

Erna vinnur eins og vitleysingur þessa dagana.   Hún fær reyndar frí í einn dag núna á fimmtudag.  Hún fer stækkandi þessa dagana og heldur því áfram næsta hálfa árið........ Mikil gleði í Munkanum Glottandi

kveðja úr Munkaþverárstræti 1 (Mér finnst þetta svo flott götunafn, nota það sem oftast!)

Eyþór


Fullt af nýjum myndum

Það er lítið um færslur þessa dagana, en kíkið á myndirnar


Nýjar myndir

Við erum alltaf að bæta inn myndum.  Kíkið á þær.  Ég er svo skapvondur eftir verslunarmannahelgarhátíðina Eina með öllu (nauðgunum, skemmdarverkum og líkamsmeiðingum) að ég ætla að bíða með að blogga í einhverja daga í viðbót.  Annars yrði það ein alsherjar skammar- og svívirðingaræða

Eyþór


Æfingadagur

Ég er búinn að vera sérlega duglegur að æfa mig í dag.  Ég er að undirbúa tónleika í Hallgrímskirkju um aðra helgi, en einnig verð ég með smá tónleika hér á Akureyri á sunnudag.  Erna er í fríi í dag og er að njóta sólarinnar.  Í fyrradag tók ég mér frí og fór ég með stelpurnar um morguninn í skoðunarferð að Gásum.  Síðan fórum við í fjöruna á milli Gása og Hörgár og drukkum þar heitt kakó og borðuðum kleinur.  Á Gásum komumst við að því að kærkiberin eru orðin svört og bara nokkuð þroskuð.  Stelpurnar fóru svo á hestbak eftir hádegið.  Þær riðu eitthvað um bakka Eyjafjarðarár.  Ekki voru þær alveg sáttar með hestana sem þær fengu á hestaleigunni.  Háfgerðar truntur samkvæmt lýsingum þeirra.  Eftir útreiðatúrinn fór fjölskyldan í sund á Þelamörk.  Brynja fór svo í bíó með vinum sínum en við hin fórum út að borða á Pengs.  Maturinn þar er mjög góður og er þetta einhver besti kínverski staður sem ég hef farið á.  Í gær var vinnudagur en Rakel fór með afa sínum og ömmu úr Borgarnesi til Húsavíkur og Brynja fór í fótbolta.  Erna og Brynja keyptu sér nýja gemsa í gær.  Þær eru ógulega svalar með samlokusíma núna.  Ég er að bíða eftir söngvara sem ég ætla að æfa með fyrir brúðkaup um helgina.  Það er bara eitt að gera í stöðunni, fara niður tröppurnar og fá sér einn bjór í sólinni.

sæl að sinni

Eyþór


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband