Færsluflokkur: Bloggar
4.12.2006 | 15:15
bla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2006 | 23:29
Röfl um eitt og annað
Mig langar rosalega til að röfla. En þar sem ég er svo ótrúlega jákvæður verð ég að bæta einhverju uppbyggilegu við.
Törnin er hafin. Aðventan er ekki einhver undirbúningstími hjá organistum. Hún er brjálæðistími. En þar sem flestir organistar virðast hafa það sem aðalhobbý að kvarta yfir hvað þeir hafi mikið að gera ætla ég ekki að segja neitt meir um það. Eftir helgina rosalegu fór þessi vika í bölvaða leiðinda skrifborðsvinnu. Tókst reyndar að gera jólahreingerninguna í leiðinni. Sóknarnefndin keypti handa mér nýja og öfluga fartölvu, sem auðveldar mér öll verk mikið, og þar sem hún tekur svo lítið pláss náði ég að henda tölvuborðinu út af skrifstofunni og hinn magnaði Sveinn, alltmúlígtmann í kirkjunni keypti þetta líka fína sófaborð fyrir mig. Nú vantar bara bar á skrifstofuna. Um síðustu helgi var ég semsagt talsvert upptekinn. Eftir langan vinnudag á fimmtudag, jarðarför, bænastund, stúlknakórsæfingu og svo laaaanga Hymnodiuæfingu fékk ég mér gott Whiskey í glas og ég er viss um að án þess hefði ég ekkert sofið þá nótt, því kollurinn á mér fer yfirleitt í allskonar helvítis hugarleikfimi á kvöldin þegar ég hef mikið að gera. Föstudagurinn fór í allskyns undirbúning fyrir amfælismessu kirkjunnar sem var á sunnudeginum. Var að því frá 8-16 en þá tók við kóræfing hjá Kór Tónlistarskólans, en ég er að leysa af núna fram að jólum sem kórstjóri þar. Æfingin var frá 16-18 en þá kom Hymnodia til að undirbúa tónleika. Sándtékkið var til klukkan 19.30. Ég reifst og skammaðist í hljóðmönnunum enda fannst mér hljóðið í kórnum ömurlegt. Held ég hafi náð að móðga gaurana aðeins þegar ég sagði þeim að það væri ekkert vit í þessu nema þeir hefðu nótur af öllu saman hjá sér. Sá á viðbrögðum þeirra að nótur hefðu bara verið sem latína fyrir þeim. Komst samt að því að standardinn er ansi hreint misjafn í þessum bransa. Ég hef kynnst frábærum hljóðmönnum sem tekst vel að vinna með kórum og strengjum, og þessir strákar eru fínir í rokkinu, en þarna stóðu þeir sig ekki vel. Ég skaust heim, hentist í jakkaföt og kom við í sjoppu og keypti mér samloku. kl 20 voru fyrri tónleikar kvöldsins, með Óskari P. Gunna Þórðar og kompaníi. Tónleikarnir voru afskaplega langir, klukkutími og 45 mínútur. Við stóðum á öskrinu allan tímann til að eitthvað heyrðist í okkur. Fengum korterspásu og þá byrjuðu seinni tónleikarnir. Þeir voru lengri! Við vorum gjörsamlega búin eftir þá tónleika. Ég skreið síðan heim um kl. hálf eitt. Morguninn eftir var ég með kóræfingu frá kl. 9-15 og mætti þá hymnodia. Þriðju tónleikarnir með Óskari byrjuðu kl. 16 og voru svipað langir og hinir. ÞEtta var reyndar mjög gaman allt saman en gífurlega erfitt vegna álags á raddir. Ég fór svo heim eftir tónleika og var hún Erna mín búin að elda uppáhalds matinn minn, pönnusteikta hnísu. Þar sem lítill tími hafði gefist til undirbúnings fyrir hátíðarmessu ákvað ég að mæta snemma á sunnudagsmorgni í kirkjuna. Þar æfði ég mig vel, kláraði messuskrágerð (sem var reyndar full af vitleysum) og tók til kóraefnið. Ég náði rétt að hendast heim í hádeginu til að gleypa í mig cheerios og skipta um föt. Bæði Stúlknakórinn og kirkjukórinn sungu við messuna og var hún mjög flókin og löng. En mér fannst samt mjög gaman og ég endaði með því að reka alla út úr kirkjunni, því ég spilaði Messiaen sem eftirspil Eftir messu fór ég beint í Tónlistarskólann og var með kóræfingu til kl. 18. Hildur og Guðmundur buðu okkur svo í mat og vegna þreytu fór rauðvínið og eðalkoníakið sem Guðmundur bauð mér upp á ekkert sérlega vel í mig, svona eftir á, því ég varð hálf slappur í maganum og steinsofnaði upp úr kl. 22.
Svona var semsagt þessi helgi, og mér sýnist þær eiga eftir að vera svona fleiri á næstunni. ÞEssi er samt róleg, bara ein æfing í dag, tónleikar kl 16 á morgun og svo ein uppákoma með Stúlknakórnum um kvöldið.
Við fórum til Unu og Óskars í kvöld og það var alveg meiriháttar. Þau eru eðalgestgjafar og við sem ætluðum svona aðeins að droppa inn stoppuðum í 5 tíma þar! Ég heyrði svo í mínum gamla góða vina, Gugga, þegar ég kom heim. Ég hef því miður lítið haft samband við hann undanfarin ár en nú ætla ég að fara að kíkja í heimsókn til hans.
Ég nenni eiginlega ekki að byrja að tuða núna. Ætlaði að röfla um pólítík, sjónvarp, spillingu og ætlaði sko ekki að spara stóru orðin, en núna er ég orðinn svo meyr. Sennilega er það hitanum af kamínunni að kenna.
röflið kemur síðar,
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2006 | 13:47
Ásfangnir krummar á Sigurhæðum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2006 | 14:01
Sjónvarpsgláp og starfsheiti
Ég er sjónvarpsfíkill
Undanfarna daga hef ég algerlegta sökkt mér í sjónvarpsgláp. Búinn að vera lasinn og ég fann mér því miður ekkert uppbyggilegra að gera en að glápa á sjónvarpið. Hef horft mikið á Discovery rásirnar allar saman, BBC Prime, Norrænu stöðvarnar og íþróttir. Það er auðvelt að festast yfir þessu enda oft gott efni í sjónvarpinu, sérstaklega á discovery stöðunum. Núna, þegar ég er orðinn nokkuð hress af pestinni, langar mig ógurlega til að halda áfram að glápa á sjónvarpið. En ég ætla að gera eitthvað uppbyggilegra í staðinn. Byrjaði strax í morgun þegar ég sat á klósettinu með kaffibollann. Fór þá að spila tölvuleik í símanum (þegar ég var búinn að spjalla við Óskar P í símanum). Núna er ég fyrir framan tölvuna og blogga og á eftir ætla ég kannski að setjast niður með fartölvuna og halda áfram að semja kennsluefni í orgelfræðum. Er þetta ekki framför frá sjónvarpsglápinu??
En í öllu sjónvarpsglápinu fór ég að hugsa um öll þau starfsheiti sem til eru. Ég horfði á hinn ágæta spurningaþátt "the weakest link" á BBC og ég áttaði mig á því að ég skildi ekki nema brot af öllum þessu fínu starfsheitum sem fólkið hafði. Þetta er komið hingað til lands, þ.e. að búa til fín nöfn yfir allt. Einhver þátttakandi í íslenskum þætti var dælitæknir. Ég efast stórlega um að íslenskufræðingar geti samþykkt þetta starfsheiti. Sjarmör þessi vann við að dæla skít úr skólplögnum. Sem sagt dælitæknir. Ekki dælumaður, dælustjóri, skítsuga, heldur dælitæknir. Ég er alls ekki að gera lítið úr starfi mannsins heldur starfsheitinu. Sum starfsheiti eru lögvernduð og er það gott. Ég er feginn að ég get ekki skráð mig á skyndihjálparnámskeið og kallað mig lækni eða hjúkrunarfræðing á eftir. Ég þekkti einu sinni par sem voru skráð í símaskrá málari og leikskólakennari. Hvorugt þeirra hafði neitt lært í þeim fögum sem þau þóttust vinna við. Hann var vissulega handlangari hjá málara og hún vann á leikskóla, en þau gátu samt skráð sig með þessi lögvernduðu starfsheiti í símaskrána. Ég er organisti. Er stoltur af því og ég er í raun nokkuð ánægður með að allir þeir sem sinna því starfi innan kirkjunnar séu kallaðir sama nafni, óháð menntun. Ég hef 7 ára háskólanám í þeirri grein á meðan aðrir hafa kannski ekkert nám en mikla hæfileika í tónlist. Mér dettur ekki í hug að fara fram á að þeir hafi einhvern annan titil en ég. Öðru máli gegnir um starf Ernu minnar, hún er sjúkraliði og það þýðir að hún hefur ákveðna menntun að baki til að sinna fólki og vinna inni á heilbrigðisstofnunum. Þótt sumar heilbrigðisstofnanir ráði ófaglærða og láti þá ganga í lögvernduð störf sjúkraliða, þá vil ég geta treyst því að faglært fólk sinni mér þegar ég ligg inni á sjúkrahúsi. A.m.k í hjúkrunarstörfunum. Því miður er það nokkuð algengt að fólk sem aldrei hefur unnið við umönnun er að sinna sjúklingum með afar alvarlega og erfiða sjúkdóma hér í bænum. Sjúkdóma sem krefjast þekkingar á, til að geta sinnt sjúklingum. Aðstandendur hafa ekkert um málið að segja, jafnvel þótt slæm mistök í meðhöndlun hafi átt sér stað. Ég ætla ekki að hætta mér meira út í þessa sálma.
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2006 | 00:38
Skoðanakönnunin
Ég vil hvetja ykkur til að hjálpa okkur við að velja jólamatinn í ár. Kjósið í skoðanakönnuninni hér til vinstri á síðunni.
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2006 | 13:49
Brynja Dögg 13 ára
Hún Brynja okkar á afmæli í dag.
Til hamingju með daginn elskan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2006 | 08:34
11. október
Myndirnar tala sínu máli. Snjórinn er kominn. Reyndar má búast við að hann taki upp í dag. Farinn að vinna, Bæ, Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2006 | 09:24
9. október
Dagurinn í dag er einhver sá fallegasti á árinu. Í gær helliringdi og í dag eru litirnir ofboðslega fallegir. Hlíðarfjallið er orðið alveg hvítt niður í miðjar hlíðar. Núna er ég farinn að telja niður, 6 dagar í rjúpu takk fyrir. Við Erna slökuðum á heima í gær, byrjuðum reyndar á að taka eina allsherjar hreingerningu en eftir það var bara slökun. Brynja kom svo sæl og glöð eftir borgarferðina.
Vinnan bíður,
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2006 | 08:44
6. október
Það var frekar dimmt yfir bænum þennan morgun
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)