30.9.2006 | 13:44
Haust
Haustið er uppáhalds árstíðin mín. Sennilega eru þetta áhrif úr sveitinni, þar sem öll skemmtilegustu verkin voru haustverkin. Á haustin byrja líka skólar og kórar og menningarlífið lifnar við á sama tíma og náttúran fölnar. Það er haustveður hér í dag, lágskýjað og svalt í veðri. Við höfum tekið því rólega í morgun, Brynja fór reyndar á handboltaæfingu, svona til að prófa það. Við Erna kúrðum bara heima fram að hádegi en fórum þá í bónerinn að gera stórinnkaup. Það er best að fara við opnun um helgar, minnst stress þá. Við erum ekki búin að taka slátur enn þá en stefnum á að gera það um næstu helgi. Kistan er eiginlega full af mat þannig að við verðum að fara að vera dugleg að elda úr henni. Borðuðum ýsu í gær, lax í kvöld og svo ætlum við að borða rjúpur á morgun, enda ætlar húsbóndinn sér að ná í 9 rjúpur núna í október og því kominn tími til að klára aflann frá í fyrra. Gæsaveiðin gekk ekki svo vel á miðvikudag. Maður verður að reyna einu sinni enn. Ég var reyndar kominn með 3 gæsir en ég vil gjarnan eiga nokkrar í viðbót í kistunni. Svo verður maður að koma sér á svartfugl. Mig vantar bara bát. Við stefnum á að fara vestur um aðra helgi. Þá verð ég kominn í sumarfrí. Tek eina viku sem ég átti inni. Ég gerði þetta líka í fyrra á sama tíma. Það var fínt að hlaða aðeins batteríin fyrir aðventu-og jólabrjálæðið. Það er ekki víst að Erna verði að vinna þá og því getum við e.t.v. átt smá tíma saman. Svo stefni ég auðvitað á að kíkja á Mása og draga hann með mér í smá rjúpnaveiði.
Eyþór
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.