1. degi í verknámi lokið

Já og mér leist ekki mjög vel á í upphafi. Kom þarna og fullt af konum horfðu bara á mig og sögðu ekkert, nema jú kannski ein:) Fannst ég svolítið lost á tímabili en þetta kemur allt saman. Fékk að fara í sáraskipti og sjá blóðprufutöku og fæ að gera það later. Jibbí gaman.  Vorum svo sendar allar sem ein á nýliðanámskeið bara verið að fara yfir brunavarnir og fleira nauðsynlegt, fannst það fínt.

Þarf að byrja á því að skipta um helgi, sagði líka við Hörpu sem sér um mig að ég ætlaði að byrja á að vera leiðinleg, ætla að byrja á að athuga hvort ég nái samningum við samnemanda minn en ef ekki þá ræðst ég á einhvern annan. Eyþór er nefnilega að fara út þessa helgi og Brynja verður í borginni að keppa.

Fór beint til mömmu eftir vinnu, var verið að senda hana með sjúkraflugi til Reykjavíkur, liggur núna á gjörgæslunni á Lansanum og á að fara í rannsóknir í fyrramálið. Elín sys fór með henni suður og ætlar Hildur að fljúga á morgun og ég kannski um helgina ef hún verður þar enn.  Brynja fór með mér að hitta ömmu sína og var það gott fyrir þær að sjást aðeins.

Katlan sá mömmu sína því ekki mikið í dag, skrapp aðeins með hana til pabba um kl 18 fengum kaffi og með því og svo heim.

Gleymi aðal fréttunum búin að fá út úr síðasta prófinu en það var hjúkrun og fékk eins og eina 8 þar bara skettilegt:) Fékk 7,5 úr prófi en hækkaði upp jibbí skibbí alveg sátt við það.

Best að hætta að rausa og fara fljótlega að leggja sig er svo þreytt :)

Sjúlli kveður andlaus 


Þreyta og aftur þreyta

Komst ekki i vinnuna á mínum fyrsta verknámsdegi, frekar leiðinlegt en Katla var með mikinn hita í nótt og mjög ergileg i morgun, þannig að ekki fór hún á Bubbakot og Eyþór var að prófdæma hjá nemendum sínum þannig að ég meldaði mig veika en fer í fyrramálið og Eyþór verður heima.

Dagarnir liðið hratt og verið strembnir á köflum. Mamma var flutt á gjörgæslu í gær og sett í öndunarvél, alveg  hundlasin  með lungabólgu ofl. Vorum mestmegnis hjá henni í gær systkinin, er skárri í dag en hundveik samt.  Fór þangað seinnipartinn með Mása bró og Lilju Hrund, bruna til hennar eftir vinnu á morgun.

Bíð gríðarlega spennt eftir einkunn, vona að hún komi fljótlega, hlýt að hafa náð trúi ekki öðru. 

Hef eiginlega lítið sem ekkert að segja, ætla að fara að sofa fljótlega alveg að verða punkteruð.

Sjúlli kveður þreyttur 

 


Þörfin er mikil

Greinilega með munnræpu þar sem ég blogga hérna orðið annan hvern dag og jafnvel hvern dag. Fínt að fá útrás hér, sumir fara í útrás með fyrirtækin sín en ég með orðin mín bwahahahhaLoL

Fór á fótboltaleik í gærkvöldi hjá 3 fl kvk sem Brynja spilar með en þær voru að keppa við meistaraflokk Sindra, Sindri vann 2-0 en djöfull voru mínar stelpur að standa í þeim samt sem áður, annar leikur kl 11 í fyrramálið og ég verð þar galvösk með fána og í treyju og bara allan pakkann:)

Rignir hér í dag eða svona súldar kannski frekar, en samt 9 stiga hiti á mínum mæli sem reyndar lýgur stundum, fór með Kötlu út áðan í vagninn og mér fannst ekkert svo kalt, enda er ég Þingeyingur og þar af leiðandi gríðarlega hörð, erum nefnilega ekki bara full af lofti heldur erum við harðir naglar líkaCrying

Ísskápurinn minn lítur út fyrir að vera nýr, hann er svo tómur, þoli ekki að hafa hann tóman, verð að versla í dag, þoli ekki heldur að versla finnst alveg hrikalega leiðinlegt að fara í Bónerinn en maður má ekki svelta liðið alveg til dauða tja nei.

Bakið farið að plaga mig aftur hefur látið mig alveg í friði eiginlega frá 2003 en þá fékk ég brjósklos, finn að ég er eitthvað að dala, veit upp á mig sökina, verð að hreyfa mig, spurning að ég fari léttan hring í dag en bara spurning sko, ekkert svar til við því enn sem komið er. Verð líka að minnka miðjuspikið það er það sem vegur á móti bakinu, bak við spikið eru vöðvar sem þrá að líta dagsins ljós, gæti gert góðverk bæði fyrir mig og þáHalo

Ætla að reyna að vera dugleg í dag og sækja kassa og reyna að pakka mömmu niður haha ekki henni sjálfri heldur dótinu í íbúðinni hennar, á að vera inni á spítala einhverjar vikur þannig að hún fer næst bara heim í nýja íbúð, alger lúxus. Er samt eitthvað svo löt, langar bara að leggjast undir sæng og horfa á tv, en ætla ekki að gera það, nægur tími til þess 15 júlí þegar mamma verður flutt, ég búin með verknámið, Katla orðin vön í Bubbakoti, og bara allt komið í fastar skorður. Búið að vera óvenju mikið bras síðustu vikur, ég í prófum, Garðarsbrautina þurfti að losa og þrífa (gerði nú ekkert brjálæðislega mikið þar), mamma að kaupa íbúð, mamma veik, pabbi að flytja, Katla að byrja á Bubbakoti, ég að byrja í verknámi. Svona hefur eitt rekið annað:) Þetta er lífið enda er ég orðin skipulagðari en ég hef nokkru sinni verið en var þó skipulögð.

Ætla núna að leggjast í bað í smá stund áður en Katla vaknar, svaf lítið í nótt litla skinnið, hor í nös og tennur allt að gerast, verður eins og hákarl fyrir rest svei mér þá.

Heimsóttum sólarsystur í gær en þær voru að fá pínulítinn kisustrák sem er nefndur Kristín jájá blessuð börninKissing Hann er bara 3-4 vikna en mamman vildi ekki sjá hann og því átti að svæfa hann en svona eru Einhyltingar vænir bjarga þeim sem minna mega sín. Þurfa að gefa honum mjólk úr sprautu algert krútt.

Þannig að nú eru 3 kisustrákar í fjölskyldunni hér á Akureyri, þeir Rónaldó, Snúður og Kristín múhahaha. 

Best að hætta að röfla, merkilegt hvað maður kemst á flug þegar maður byrjar

Sjúlli kveður á ferð og flugi 


Hlunkur um hlass frá jussu til brussu

Ég sit hér, úða í mig nammi og tek tímann á hvað unglingurinn minn er lengi að hlaupa vissa vegalengd í rigningu og trekk. Er ég eðlileg svo kvarta ég um björgunarhring og 10 kg en voga mér að gera þetta. Crying Ég ætti að skammast mín og vera að hlaupa með henni en NEIIIIIII, hlunkurinn klístrast fastur við sófann með tölvuna í fanginu og súkkulaði út á kinn og skilur ekkert í því afhverju þetta er svo DÖHHH.

Hvað er annars títt..ekki mikið hér á bæ, enn að bíða eftir einkunn, miskunn en aðallega vorkunn Bwaahaaa. Síðasti dagurinn í heimahjúkrun í dag í heila 2 mánuði og þegar ég kem aftur verða þær komnar á glænýjan stað og ég rata ábyggilega ekki. Byrja á mánudag á Hlíð og er gassalega spennt.  Vann extra hratt í morgun, Katla fór nefnilega í aðlögun og ég hafði 1 1/2 tíma til að klára það sem ég þurfti að klára og það gekk og meira segja án þess að vera mjög stressuð.

Heimsótti svo mömmu mína á spítalann ekki gott ástand þar, maður krossar bara putta. Mási bró kom hérna í dag og svo aftur í kvöldmat til mín með Himma, voru að fara í bíó kallarnir og svo heim. Elín sys kom líka var á leið suður en kíkti til mömmu í leiðinni, Mási gerði það líka, og húsvitjaði pabba í leiðinni. Alltaf gott að sjá þetta lið. Pabbi kom líka í dag og Hilla sys, Guðmundur og dætur þannig að öll ættin næstum búin að koma geri aðrir betur á einum degi Tounge

Allt gengur sinn vanagang bara, Eyþór kominn að sunnan en búinn að vinna í allan dag samt. Kemur heim í kvöld um 22.30, allt vetrarstarf í kirkjunni að enda þannig að nú fer að verða rólegra hjá honum. Hann eignaðist eiginlega nýtt líf þegar hann fékk insúlíndæluna, hefur lagt helling af (annað en kellingin) og bara ekki eins orkulaus eins og hann var. Var fyrir sunnan í eftirliti og það gekk líka svona skafið. Tveir sem fengu dæluna á sama tíma hér á Akureyri þannig að þeir geta haft smá stuðning hver af öðrum gott mál.

Ætla að henda mér yfir nokkra þætti af Grace Anatomy hef EKKERT annað að gera með súkkulaðiátinu

Sjúlli kveður ofvaxinn á ýmsum stöðum 


Skyldi maður spyrja sig.....tja því ekki

Var að dunda mér við að horfa á One Tree Hill á netinu þegar fjandans þátturinn fraus í miðjum klíðum þannig að ég nennti ekki að downloada honum aftur og ákvað að blogga bara eins og smotterís. Var heima í morgun með Kötlu lasna, hundlasin með hitavellu og slef sem hefði dugað í Rauðahafið. En svo allt önnur núna í kvöld, ekkert nema stríðnin. Kíkti aðeins með hana í Bubbakot og þar vildi hún ekki tala við Önnu né Svenna fyrst í stað en svo kom það nú allt saman og ætlum við aftur seinnipartinn á morgun. Var svo boðið með í sveitaferð á föstudaginn eftir hádegi að skoða litlu lömbin og held ég nú að það verði gaman bara.

Er að bíða eftir því að fá einkunn úr síðasta prófinu mínu vona að ég hafi slefað.

Mamman mín enn einu sinni komin á spítala alveg hundlasin, með vatn í lungum og byrjandi hjartabilun, ástand á henni blessaðri, vona að þetta komi nú til með að lagast eitthvað, ætla að kíkja á hana á morgun en hún var í einhverjum rannsóknum í dag.

Pabbi og Guðmundur fóru á Yfirliðsbræður í KA heimilinu og held þeir hafi skemmt sér alveg konunglega, allavega skemmti ég mér konunglega hér í eldhúsinu þegar þeir voru að æfa þetta prógramm, þokkalegir rugludallar alveg hreint.

Eyþór fór til Reykjavíkur í gær kom heim í dag og fer aftur til Reykjavíkur á morgun og kemur á fimmtudaginn, spurning hvort ekki væri ódýrara að eiga bara eins og eina rellu tja maður spyr sig. Kannski loftbelg bara tja maður spyr sig aftur bara.

Ætli sé ekki best að maður fari að drulla sér í bælið í staðinn fyrir að vera að röfla hér tíma steypu, held það nú bara. Stelpurnar allar farnar að sofa og ekki mjög algengt að elsta stelpan (Ég ef einhver skyld ekki kveikja) sé síðust í rúmið, er yfirleitt eins og gamla fólkið komin í bælið tja ekki seinna en 22.30.

Sjúlli svakalegi kveður alveg svaka sætur, tja maður spyr sig. 


Það er komið sumar...

en engin sól sem glennir sig samt, ekki enn en greinilega ekki langt í hana. 16°hiti á mæli, ofsalega hreint og fallegt loftið þar sem það rigndi í nótt jájá. Var að svæfa Kötlu áðan úti í vagni, labbaði mjög hratt hérna um garðinn þvi það er mikið af þeim röndóttu og feitu á sveimi og mér er alveg sérlega illa við þær *hrollur* en þetta er hluti af sumrinu svo maður lætur sig hafa það á meðan þær fara ekki að bjóða sér inn til mín í hunangLoL

Fórum í langan hjólatúr með Kötlu í gær í rigninunni, hún sofnaði reyndar á leiðinni heim bara fyndið. Svo þegar við komum heim tók hinn agalegasti söngur á móti okkur, þá voru það þeir Óskar Pé, Jónas Þórir og Örn Árna að æfa sig fyrir tónleika sem þeir eru með hér í kvöld. Eyþór hafði verið búinn að gefa þeim leyfi á píanóið, flott enda græddi ég fékk að hlusta á allt prógrammið þar sem ég kemst ekki á tónleikana, en buðum bara pabba og Guðmundi mágsa í staðinn:) Eyþór er nefnilega farinn í borgina til að dæma prófdæma hjá orgelnemendum sínum og til læknis í leiðinni, kemur aftur á morgun eftir hádegi.

Varð afskaplega ill út í lítinn gutta áðan sem var að labba með pínulítinn svona tjíváva (kann ekki að skrifa) í bandi, var svo með sand í poka og grýtti alltaf af öllum kröftum í litla hundsgreyið. Ótrúlegt auðvitað er þetta óvitaskapur en sama. Hundskvikindið var auðvitað ýlfrandi og svona og ég sagði við guttann að maður mætti ekki gera svona við dýrin þau fyndu til, en þá sagði hann að hann væri svo óþekkur, og á því augnabliki kallaði mamman í hann annars hugsa ég að ég hefði farið og rifið í rassinn á drengnum, þoli ekki svona. Gasp

Búin að vera að rífast við launadeildina hjá bænum, hef verið að halda því fram að ég sé í röngum launaflokki, ekkert fengið nema skít á móti, og ekki launaflokkshækkun, en núna sér fram á bjartari tíð því við erum komnar með trúnaðarmann sem segir mig vera í röngum launaflokki og þá er nú bara að breyta því minn kæri launakall og ekkert múður. 

Katla ef á fullu að taka tennur með tilheyrandi slefi og ýlfri einar 2-3 tennur að ryðjast upp núna, pabbi hennar er mest hræddur um að hún verði eins og hákarl þegar allar eru komnar, þar sem okkur finnst hún alltaf vera að taka tennurW00t Fær svona hitatoppa þegar þær brjótast í gegn. Hljómaði núna í tækinu Bía Bía en það þýðir Brynja, við megum varla neitt gera bara hún Bía:) En sofnaði aftur eftir smá rugg.

Hef eiginlega ekkert meira að segja, sá mér til mikillar gleði að helvítis roðamaurinn er að vakna til lífsins verð að drepa hann með einhverjum ráðum spurning um kaffikorginn ætla að prófa það. 

Sjúlli kveður með allt á hornum sér 

 


Hvítasunna afhverju hvíta?

Sit hérna og eiginlega bíð eftir að örverpið mitt vakni, búin að sofa í blíðunni í næstum  11/2 klst. Var að vinna í morgun og Rakel að passa, gekk sæmilega, vann hratt og var komin heim um 10. Veit ekki hvernig fer á þriðjudag, en Eyþór fer suður spurning hver passar?

Rakel er s.s komin, kom seinnipartinn á föstudag og verður til 15 júlí. Ætlar í bæjarvinnuna ef hún fær vinnu þar, ekki komið svar ennþá. 

Ofsalega gott veður hérna og hitinn kominn í tæp 12 stig. Fer hækkandi núna með degi hverjum.

Skólinn búinn hjá mér, síðasta prófið var á föstudag, mikill léttir að það sé búið en svo er ég að byrja eins og áður hefur komið fram þann 19 maí á Hlíð í 100% vinnu í 2 mánuði og þá er þeim kafla í náminu lokið. Þá á ég bara eftir tvö fög og 2 ferðir suður, eina vettvangsferð og svo útskriftarferð í desember 2008 jibbí.  Verð nú samt ekki róleg fyrr en ég fæ einkunn úr þessu prófi, var ofsa erfitt og reyndar ekki mikið lesið en það lufsast held ég samt. Krossa fingur allavega.

Eyþór er að spila í fermingu núna, fyrir ári síðan á hvítasunnu var ég að ferma, mikið líður tíminn hratt, hvítasunnan reyndar fyrr á ferðinni í ár, ég fermdi 26 maí minnir mig.

Brynja er á Selfossi að keppa og þjappa liðinu saman, fóru bæði kk og kvk 3 fl. og skilst mér að það sé gríðarleg stemning. Reyndar ekki heyrt í henni nema í gegnum sms þar sem hún týndi fyrst símanum og svo þegar hún fann hann þá dó hann:) 

Rindill farinn að lemja tækið þannig að það er best að sækja elskuna litlu.

Sjúlli kveður þreyttur ennþá 


Tralalla nú skal gleðjast

Já ef ekki er ástæða til að blogga þá er það aldrei. Ég var að fá út úr Lyfhrifaprófinu og ég snýtti einni 7 þar, var án gríns algjörlega viss um að ég myndi falla en reyndar er ég hrædd um það fyrir hvert próf þannig að jibbí ......

Ekkert lært í dag, var samt snemma búin í vinnunni ætlaði að fara að læra, vaknaði ormurinn, og einhvernveginn getur þetta ekki verið tilviljun hún fær alltaf eitthvað hor í nös þegar ég á að taka próf, síðustu viku var hún að kvefast einmitt á miðvikudegi eða fimmtudegi, svo varð aldrei neitt úr því, svo núna lekur úr nebba, ergelsi og lítil í sér týpískt en svona er þetta. Læri bara í kvöld þegar hún er sofnuð.

Einn skjólstæðingur minn lamdi mig eða boxaði mig, er að drepast í trýninu, svona á milli augnanna, gerði það nú ekki viljandi er bara með svo mikinn spasma í útlimum að mér var bara nær að vera að flækjast svona nálægt honum haha, gleraugun beygluðust og allt í volli. En svona er þetta.

Hef nú ekki mikið að segja í augnablikinu, varð bara að segja einhverjum að ég hefði náð prófi, aldeilis hlessa.

Sjúlli kveður snilli tilli 


I have to blogg, I really do

Ekki slök í útlenskunni tja nei ....

Lögðum af stað systur í góðum gír kl 7 í morgun til Húsavíkur, höfðum fengið mömmu bíl til að fara á, ofsa glaðar systur sem keyrðum út úr bænum lá við að við værum sönglandi gamla slagara svo kátar vorum við  "klukkan 7 að morgni takið eftir" Vorum komna á svalbarðsströndina þegar Hillus fór að kvarta yfir því að bíllinn væri nú eitthvað kraftlaus, svalar á því héldum samt áfram en allt í einu missti kagginn kraft og svalinn lak af okkur systrum. Renndum bílnum út í kant og gaus upp þessi líka fína gúmmí/hitalykt. Eins og sannar sveitastelpur, hentum okkur ofaní húddið til að kanna málið, jújú næg olía komumst við að eftir að Hillan hafði þurrkað af með pappír, allt eins og okkur hafði verið kennt, jú nægur rúðuvökvi líka, ekki að það kæmi málinu við.

Hringdum í Eyþór sem kom og sótti okkur svo við gætum sótt bílinn hennar Hildar. Fórum aftur af stað kl að verða 8 enn þónokkuð svalar, Hildur keypti sér orkudrykk í leirunni svona til að hafa næga orku til að ýta bílnum sínum ef eitthvað myndi klikka, setti upp þau bleiku (gríðarleg bleik gleraugu) og af stað. Hlógum þegar við keyrðum framhjá Polo þar sem greyið hýmdi í vegkantinum. Svona er nú lífið. Þar er hann enn verður vonandi reddað á morgun:)

Komumst á leiðarenda þar sem við byrjuðum á að fá okkur veitingar og síðan voru tuskur og kústar hafnir á loft og sú sem orkudrykkinn hafði drukkið var eins og ofvirk randafluga um allt klósett, en ég fór að þrífa flugnaskít,  náðum að gera eiginlega allt sem gera þurfti áður en við renndum tilbaka á Eyrina. Pabbi kom svo seinnipartinn með rúm sem ég fékk að hirða Hildur átti það reyndar, geri það upp við hana síðar, kaupi handa henni blá gleraugu og orkudrykk.....

Er að búa mig undir að læra fyrir hjúkrunarpróf, gekk hroðalega illa í Lyfhrifafræði. Kemur í ljós hvernig það gekk samt. Katla með kvef eins og mamman og búin að vera mjög ergileg í kvöld. Brynja fór að passa með vinkonu sinni og Eyþór er á Ólafsfirði með kórnum (man ekki hvaða kór)

Ætla að fara að undirbúa lesningu efast um að ég leggi í að byrja í kvöld en gott að gera allt klárt.

Þetta blogg ætla ég að tileinka mínum ástkæra bróðir honum Mása sem ELSKAR að lesa bloggin mín:::) 

Sjúlli kveður "svaka heitur" 


Andinn farinn

Þá er einu erfiðasta prófi lokið sem ég hef farið í, vá vissi að það yrði erfitt en svona strembið, krossa putta fyrir eins og einni 5LoL Þegar ég kom svo heim eftir prófið var hún Brynja mín búin að þrífa alla íbúðina ekkert nema dugnaðurinn og systir hennar að vakna og allt gekk svona ljómandi vel, gott að eiga eina svona stelpu sko. Fórum og fjárfestum í hillum í herbergið hennar í dag og hægindastól fyrir Kötlu sem hún reyndar misskilur eitthvað og ýtir honum á undan sér eins og bíl haha en vill ekki setjast í hann.

Kvef að herja á okkur hér, Katla komin með smá hor vona að það stoppi áður en það verður meira, ég með hálsbólgu og hor og svona skemmtileg. En það er nú kannski ekki skrýtið þegar veðurfarið er heitt, kalt, heitt, kalt til skiptis.

Erum við systur að bruna til Húsavíkur kl 7 í fyrramálið til að klára að þrífa á Garðarsbrautinni, pabbi reyndar búinn að eiginlega öllu eitthvað smotterí eftir bara, ætlum að vera komnar fyrir kl 12 aftur.

Mamma búin að skrifa undir kaup á sinni íbúð bara flott. Ætla að sækja lykla að geymslunni á morgun svo hægt verði að fara að týna í geymsluna hjá henni dót.

Svo er annað próf á föstudaginn næsta og svo styttist í verknámið mitt sem byrjar 19 maí, allt að gerast, Katla í aðlögun á Bubbakot þann 13 maí og byrjar síðan algerlega þann 19 maí og þá fer ég í verknám. Hlakka verulega til 15 júlí þegar ég verð búin með það allt saman. Fer þá aftur að vinna í heimahjúkrun og svo sumarfrí 11 ágúst til 25 ágúst, á svo lítið þetta árið en það er allt í lagi. Svo byrjar bara sama geðveikin, vinna, læra, heimili og það allt saman. 

Beest að hætta þessu og kúra fyrir framan sjónvarpið ekki leyft mér það undanfarin kvöld sökum prófalesturs. Er svo þreytt, þreytt og endalaust þreytt

Sjúlli kveður búinn á sál og líkama 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband