17.5.2006 | 22:33
Pizza Hut
17.5.2006 | 22:29
Við mælum með....
Við árbakkan, Bláa húsið á Blönduósi.
Gleymið vegasjoppunum á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Farið í bláa húsið sem er við Kaupfélagið á Blönduósi og smakkið á snilldarsúpum og salati þeirra. Aldrei meir pylsa í Staðarskála og samloka í Esso á Blönduósi!
Súpur í hádeginu á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Miklu betri en súpurnar á Bláu könnunni. Namm!
Við mælum með.... | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2006 | 22:16
Helgin í snjó?
Eftir að hafa búið í Svíþjóð í 4 ár fór mér að finnast veðrið skemmtilegra á Íslandi. Amk hér á Akureyri. Tilbreytingaleysið í Svíþjóð var farið að fara í taugarnar á mér. veðrið var t.d. eins vikum saman, í desember til mars var logn, 20-30 stiga frost og sól 6 daga af 7. Aldrei skafrenningur, aldrei neinn kraftur í veðráttunni. En ég verð að viðurkenna að núna vil ég bara fá sumarið. Vorið kom yfirleitt mjög skyndilega í Svíþjóð og það var bara allt í einu hlýtt og þannig hélst það. Mér sýnist að ég þurfi að taka með mér lopapeysuna og snjógallann fyrir Mývatnshelgina, því veðurspáin er köld. Við erum s.s. að fara á Hótel Reynihlíð um helgina ásamt Hymnodiu og mökum. Brynja ætlar í "pössun" til Rakelar vinkonu sinnar hér á Akureyri. Við erum sennilega 18 sem förum í heimsókn til Ernu Þórarins og Péturs í Reynihlíð um helgina. Það verður gaman að kynnast mökum þessa góða fólks sem maður hefur umgengst svo mikið í vetur. Þetta er fyrst og fremst hugsað sem afslöppunar- og skemmtiferð. Góð veislumáltíð á laugardagskvöld, Júróvísíon, Jarðböðin og gönguferðir um þessa náttúruparadís. Ekki leiðinlegt að vera þar núna þegar náttúran er öll að lifna við.
Starf mitt mun taka miklum breytingum í haust. Ég veit í raun ekki alveg hvernig næsti vetur verður en það er ljóst að ég mun vera talsvert bundinn hér. Ég þarf að fara að semja við vinnuveitendur mína um fyrirkomulagið. Satt best að segja kvíði ég því svolítið, því mér hefur liðið afar vel í vinnunni en það er svo sem ekkert sem segir að hlutirnir munu versna. Starfið í Akureyrarkirkju er afar gefandi og skemmtilegt. Hápunkarnir eru kórarnir mínir, Stúlknakórinn og Hymnodía. Þeir eru pínulítið sem börnin mín. Einnig hef ég haft mikið frjálsræði til að fara og halda tónleika um allar trissur. Ef ég þyrfti að fórna einhverju af þessu yrði starf mitt um leið svo mikið leiðinlegra.
Ég fór í hádeginu á Amtsbókasafnið með Sr. Óskari. Það er hægt að kaupa sér snilldarsúpur þar í hádeginu. Frábærlega góð súpa með heimabökuðu brauði. Það var mjög gott að setjast niður með Óskari og spjalla. Hann er sérlega vandaður maður og við erum að mörgu leyti líkir.
Á morgun fara nemendur mínir í próf. Þetta er yfirleitt svolítið stressmoment fyrir mig. Ég reyni að leggja allan metnað í að nemendur mínir standi sig vel. Mér finnst mjög gefandi og gaman að kenna og þá sérstaklega þegar kennslan verður gagnvirk, þ.e. þegar umræður skapast um tónlistina og annað sem tengist náminu. Ég er pínulítið stressaður fyrir hönd nemenda minna, þrátt fyrir að ég viti að þau eru mjög vel undirbúin og munu standa sig vel í prófum. Ég er svo að dæma 3 kórstjórnarpróf á morgun. Það finnst mér spennandi.
Ég fór eitt kvöldið á afvikinn stað með byssurnar mínar og fékk mikla útrás með þær. Skaut einhverjum 25 skotum úr sjálvirku byssunni, svona rétt til að kynnast henni betur og svo skaut ég 50-60 skotum úr rifflinum. Náði að stilla kíkinn nokkuð vel. Var farinn að hitta innan 5 cm ramma á 50 metrum og innan 10 cm á 80-90 metrum. Það var svolítið breytilegur vindur sem hafði smá áhrif. Ég var ekki með tvífót á rifflinum eða sandpoka þannig að ég skaut bara haldandi á honum. Ég er bara ánægður með það og ég vona að ég geti eitthvað notað báðar byssurnar í haust. Ég er búinn að redda mér smá gæsaveiði og svo fer maður að sjálfsögðu á rjúpu. Mig langar mikið til að veiða Heiðagæs en ég hef aldrei veitt þær. Einnig hef ég lítið farið á andaveiðar. maður þarf helst að vera með góðan veiðihund á andaveiðum. Stöngunum mínum næ ég eitthvað að sveifla í sumar. Ég var að áðan heyra í mínum góða vini, Ágústi. Við ætlum að fara eina nótt núna í lok maí. Svo verður maður nú að komast í Ölvesvatn með Hjörleifi í sumar. Það er bara möst! Einnig langar mig mikið í veiði með pabba.
Við Erna byrjuðum í gær á að semja boðskort fyrir brúðkaupið. Úr því varð eitt alsherjar grín. Þetta gengur ekki alveg nógu vel hjá okkur. Við erum kannski full afslöppuð. Já eða kærulaus. Við erum ekkert farin að spá í matinn að ráði. Ætlum bara að hafa einhvern grodda, almennilegan grillmat og bjór. Það er meira okkar stíll en fín hlaðborð.
Jæja mín kæru, ég er farinn að sofa.
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2006 | 13:18
Undarlegar lífverur
Hér í Munkanum er mikið líf og mikið gaman. Fyrir utan familiuna og fuglana 6 og kettina 2 þá hafa tekið sér hér bólfestu litlar brúnar púpur ójá og það í eldhúsinnréttingunni okkar. Búin að sjá þessi kvikindi annaðslagið og drepið þau jafnharðan en svo áðan týndi ég þau hér og þar undan innréttingunni og út úr henni þá bað ég húsbóndann vinsamlegast að hringja á meindýraeyði.......þannig að nú sit ég og bíð eftir pöddumanninum *hrollur*
En að öðru við gamla settið erum að fara í Mývatnssveit um helgina með kórnum Hymnodiu já eða hluta af honum í afslöppun og át og smá dýfingu í jarðböðunum þeirra....við Eyþór ætlum að reyna að ganga á Hrafntinnuhrygg höfum lengi ætlað að gera það en aldrei orðið neitt úr því þannig að stefnan er sett á hana góð byrjun fyrir göngusumarið mikla sem líklega verður eins og síðasta sumar ekki mikið gengið af því sem átti að ganga allavega ekki ég
Svo Silvía Night á fimmtudaginn get ekki beðið því mér finnst hún í einu orði sagt SNILLD, hvaða máli breytir það svo sem þó að hún komist ekki inn í aðalkeppnina, verður nú ekki fyrst til að missa af því en verður samt líklega sú eftirminnilegasta ja kannski fyrir utan DJ Pál Óskar sem auðvitað brilleraði á sínum tíma
Vorum í gær aðeins að huga að brúðkaupi fer nú að líða að því að fólk fái boðbréf svona þegar við gefum okkur tíma í að smyrja því saman, endar með því að það verður hringt í alla erum svolítið sunnan við okkur, vorum líka að planera salinn í kirkjunni erum hrædd við veðrið og endum líklega á að vera bara með veisluna þar, hægt líka að vera þar úti ef veðrið verður gott....nenni ekki að plana þetta enda bara gaman að vera ekki með allt of skipulagt......svolítið kaos gerir þetta bara spennandi.
Best að fara að athuga hvort pöddumaðurinn hafi drukknað á leiðinni eða fallið fyrir ormi eða eitthvað.....
Erna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2006 | 15:44
lukkulegur á laugardegi
Nú var ég að spretta inn inn í kirkjuna og sé að ég hef 10 mínútur, sem duga ekki til neins af viti, þess vegna blogga ég bara. Það er búið að vera nokkuð líflegt undanfarið hjá okkur öllum. Brynja er í prófum og verður næstu vikurnar. Það gengur rosalega vel hjá henni og hún fékk þrjár tíur og eina 9,5 einkunn úr síðustu 4 prófum. Í gær fór hún á fótboltaæfingu, þrátt fyrir að hún sé bólgin og hölt. Hún spilaði reyndar ekki, fylgdist bara með. Eftir það fór hún í grillpartý hjá þjálfaranum. Jónsi, þjálfari þeirra, er alger snillingur og nær frábærum tökum á stelpunum. Erna er í helgarfríi þessa helgi. Ég er búinn að vera að spila hér og þar þessa vikuna, 3 jarðarfarir, afmæli, skemmtanir og núna í hádeginu stjórnaði ég, spilaði með og söng með Kór Glerárkirkju á tónleikum. Ég er svo að fara á tónleika með mínum gömlu félögum í Grundartangakórnum. Grundartangakórinn var fyrsti kórinn sem ég stjórnaði.
Í gær elduðum við okkur löngu í fyrsta skipti. Ég hef aldrei smakkað löngu fyrr en hún er rosalega góð. Þéttur og góður fiskur. Ég gerði sósu úr hvítvíni, lauk, gúrkubitum, sýrðum rjóma, dilli o.fl. og þetta rann ljúflega niður. Það er svo rosalega gott að borða fisk, maður verður ekki eins þungt saddur af honum. Við eigum svolítið eftir af löngunni og einnig lúðu. Mig langar svolítið til að komast yfir skötusel. Hef aldrei eldað hann sjálfur en mér er sagt að það sé svolítið erfitt.
Rokinn á tónleika,
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2006 | 23:20
Kórgalinn
Jæja þá er maður kominn heim af einni kóræfingunni enn. Í kvöld var það kirkjukórinn. Þau sungu Mozart Requiem og sænska síðrómantík. Í gær hitti ég Hymnodiu, var eiginlega kominn með fráhvarfseinkenni því ég hafði ekki hitt þau í tvær vikur. Við sungum Arvo Pärt og Hildigunni Rúnars. Góð blanda. Það er margt spennandi framundan hjá okkur og við vöðum eiginlega í tilboðum um tónleika og annan söng.
Brynja fór til læknis í gær vegna bólgu og kvala í ristinni. Það er ekki komið á hreint hvað er að hrjá hana, líklegast er það eitthvað sem heitir álagsbrot eða þá sýking. Hvort tveggja er slæmt, sérstaklega núna þegar hún er sem öflugust á fótboltaæfingum. Enda er hún hundfúl yfir þessu. Þær stelpurnar í Þór eru nefnilega að fara í keppnisferð til Danmerkur í júlí.
Við Erna erum búin að vera dugleg við að hugsa um að fara að taka til í garðinum en það hefur lítið orðið úr verki hjá okkur. Á morgun..... segir sá lati. Við erum samt að spá í að fella eitt reynitréð, enda er það orðið frekar ljótt og tekur bara næringu frá öðrum gróðri. Með því reddum við eldivið í kamínuna fyrir næstu árin . Ætli maður verði ekki svo að fara að ná sér í skít í beðin.
Það hefur gengið illa hjá mér að komast í orgelið til að æfa mig. Mikið hefur verið að gerast í kirkjunni og ég hef verið upptekinn þegar orgelið hefur verið laust. Þetta er farið að pirra mig svolítið. Það fer að styttast í alla tónleikana og ég verð að fara að æfa mig meira. Svo er útvarpsmessa í beinni á sunnudag og ég verð að finna eitthvað gott til að spila þar.
Karrýið var skrambi gott, át yfir mig eins og venjulega. Annars hefur sykursýkin verið í mjög góðu lagi undanfarið. Þökk sé aukinni hreyfingu (skokkaði 5 km í dag) og bættu mataræði. Einnig sef ég aðeins meira núna en oft áður.
Jæja, beddinn bíður
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2006 | 16:17
Viti menn
Það fór næstum því eins og ég var hræddur um, þ.e. að ég myndi ekki endast meira en eina viku í að skrifa á síðuna. En nú er ég mættur. Fjandi góður dagur í dag. Kalt og hressandi úti. Gott að fá smá kulda, því það er nefnilega alltaf svo rosalega heitt og gott á Akureyri . Ég er kominn í vorskap, nenni ekki að vinna og langar mest í veiði. Ég er búinn að fá byssurnar mínar og búinn að prófa þær. Haglabyssan er snilld en ég þarf að fínstilla kíkinn á rifflinum.
Laugardagurinn var langur hjá mér, 18 tíma vinna. Stúlknakórinn var með æfingadag og eftir æfingu fórum við í Kjarnaskóg og grilluðum og fórum í fótbolta og leiki. Síðan gisti hluti kórsins hér í kirkjunni og ég var hjá þeim fram yfir miðnættið. Í einni pásunni spilaði ég svo í tveimur giftingum. Æfingin gekk rosalega vel og erum við að vera tilbúin fyrir Austurríkis-og Slóveníuferðina. Á fimmtudag ætlum við að hitta Önu, sem er slóvensk, en hún ætlar að hjálpa okkur með framburðinn á slóvenskunni. Í kvöld er ég að spila með Óskari P í afmæli á KEA hóteli og síðan tekur við kóræfing hjá kirkjukórnum.
Það er kannski best að koma sér heim og fara að elda. Það er sú besta afslöppun sem ég veit. Ég ætla að malla eitthvað gott heimatilbúið grænmetis- og kjúklingabaunakarrý. Namm! Ætli ég sleppi ekki hlaupabrettinu í dag. Það er ótrúlega magnað að hafa það svona heima hjá sér. Við erum komin með fína aðstöðu í kjallaranum, hlaupabretti, stigvélina hennar Margrétar, lóð og önnur líkamsræktartól. Sjónvarp fyrir framan og geislaspilarinn í eyrunum. Ef ég ætla ekki að drepast á fjöllum næsta haust í rjúpnaveiðinni, þá verð ég að hlaupa af mér öll hnévandræði. Svo hjóla ég allt sem ég þarf að fara þessa dagana.
Jæja Elvý, núna stóð ég við yfirlýsingar mínar frá í gær,
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2006 | 14:14
Sólstrandagæji það er í góðu lagi að vera gabbagabbagæji:)
Reykjavíkurferðin var fín, merkilegt samt hvað ég verð alltaf hrikalega þreytt í borginni, pirruð og örg....allir að farast úr stressi, flautað á mann hægri vinstri og ég veit ekki hvað og hvað. Kann best við mig í rólegheitum Náði samt að eyða alveg einni og einni krónu sko...keypti mér brúðarkjól og svo ýmislegt meira.
En hvað um það var að koma frá sjúkraþjálfaranum mínum honum Einari sem að mínu áliti er sá besti sem til er...kom mér í lag þegar bakið gaf sig fyrir 3 árum og svo núna er hann að laga hálsinn á mér eftir áreksturinn síðasta sumar, setti inn beiðni hjá Einari fyrir tæpum 3 mánuðum og komst að í dag er ekkert smá þolinmóð, Eyþór var alltaf að segja mér að fara til einhvers annars yeah right En nóg um það keypti mér disk í Haggaranum áðan sem heitir Papar á balli og keypti hann bara út af einu lagi sem er Sólstrandagæji, búin að halda mikið upp á þetta lag eiginlega bara síðan ég var 20 ára átti disk með Sólstrandagæjunum sem reyndar var stolið af mér og er ófáanlegur núna
en gæfi mikið fyrir að eignast hann.
Var í gær að safna flöskum fyrir Þórsara í gær með Brynju og Valdísi þvílíkt sem fólk drekkur sem betur fer fyrir okkur náðum 12 pokum á mjög stuttum tíma, síðan opnaði bara Endurvinnslan fyrir okkur og foreldrar töldu flöskur alveg í þúsunda taliVar verið að safna fyrir einhvern strák sem lamaðist en var í Þór.
Hlaupabrettið sem við verðandi hjónin fjárfestum í í Intersport er komið á eyrina og kemur um þrjúleytið hingað þannig að hér verða allir á hlaupum næstu vikur, mánuði og ár. Brynja er að þjálfa upp þolið hjá mömmu sinni og fór með hana upp í Kjarna í fyrradag og kenndi mér tæknina í hlaupinu, fór svo ein í gær og get svarið það að ég hélt að ég væri að deyja, með blóðbragð í munninum og ég veit ekki hvað.
Jæja best að fara að reyna að blása einhverju af öllu rykinu í burtu oft var þörf en nú er nauðsyn eins og einhver góður maður sagði
Trallla Afhverju byggirðu ekki reykháf alveg helvítis hellings reykháf, þú veist að konur eru mikið fyrir menn með stóra reykháfa Svo mörg voru þau orð.....Kv gabbagabbagabbagabbagabbagæji
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2006 | 01:14
Kalli biskup, flottur kall
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item70413/
Flott hjá Kalla. Núna er ég sko sammála Hr. Karli. Ég gæti sko skrifað heila bók um fíflaskap og fáránlegar uppákomur í brúðkaupum sem ég hef spilað í. Eitt eiga þau þó flest sameiginlegt. Brúðhjónin eru svo stressuð yfir staðsetningu ljósmyndara, vídéómyndavél brúðkaupsþáttarins Já, kjólnum hjá brúðarmeyjunum 17, blómaskreytingunni á bílnum, bráðnandi ísskúlptúrnum, milljón króna VISA reikningnum og öllu hinu kjaftæðinu að þau gleyma að líta hvort á annað alla athöfnina og brosa aldrei. Hef lent í brúðkaupum sem kosta meira en hús á Raufarhöfn, brúðhjónin stinga af til útlanda í ferð en svo þegar kemur að því að borga organistaræfinlum 10.000 kallinn þá berst engin greiðsla, þegar ræfillinn hringir svo í brúðhjónin til að minna á greiðsluseðilinn þá er búið að loka öllum símum og mörgum mánuðum seinna gefst maður upp á að rukka, enda hjónin skilin, íbúðin komin á uppboð, fólkið komið á féló, þeas ef einhver hefur þá getað sent fólkinu pening til Karabíska hafsins í brúðkaupsferðina og þar með komið fólkinu heim , þar sem klippt var á VISA kortið og fólkið strandaglópar á vafasömum bar í Havana á Kúbu.
28.4.2006 | 00:50
Vorið er komið
Í dag fékk ég fyrst þá tilfinningu að vorið væri í alvöru komið. Þetta var einn af þessum ekta vordögum, bjart, hlýtt og stíf sunnanátt. Núna er klukkan hálftólf um kvöld og það er enn 11 stiga hiti. Það grænkar allt mjög hratt þótt snjórinn sé enn mikill í fjöllunum. Ég fæ svo rosalega mikla þörf til að vera úti á þessum tíma. Ég sakna alltaf sauðburðar, lóunnar og öllu sem vorinu fylgir. Mér finnst annar af stóru göllunum við að búa í þéttbýli vera sá að maður missir þessi beinu tengsl við náttúruna. Hinn gallinn er mengunin, þeas loft-, hljóð- og ekki síst ljósmengun. Ég er ekki nógu duglegur við að fara út úr bænum til að upplifa vorið. Ég þyrfti eiginlega að komast í sveit á vorin. Hjálpa nokkrum kindum í burði og marka nokkur lömb á nóttunni. Sveitarómantíkin er nefnilega alveg einstök og það er ekkert sem jafnast á við hana.
Á þessum tíma árs verð ég óþreyjufullur og langar á fjöll og á veiðar. Ég fór í fyrradag og pantaði mér tvær nýjar byssur. Nú á ég bráðum heilt vopnabúr! Gömlu ítölsku tvíhleypuna, eina sjálfvirka haglabyssu og svo riffil. Eða eiginlega bara riffling (22 cal) Ég er að verða vitlaus af spennu, því hann Daníel lögga er búinn að vera veikur í nokkra daga og því fæ ég ekki innkaupaleyfið afgreitt. Svo er að koma helgi og á mánudag er frídagur og ég fæ því ekki leyfið fyrr en í fyrsta lagi á þriðjudag. Ég er eins og barn á jólum. Mér leið eins þegar ég pantaði flugustöngina mína. Ég ætla á næstu dögum að setja hana saman og fara að æfa mig fyrir sumarið.
Við pabbi stefnum á að fara á fjöll í ágúst. Ég hlakka mikið til, því ég hef ekki komist almennilega á fjöll með honum í 3 ár. Mér finnst alveg meiriháttar að fara með pabba á fjöll á gamla Patroljeppanum hans. Við pabbi erum nefnilega svolítið líkir, hægir og fámálir og okkur finnst gaman að vera út í náttúrunni. Margar af mínum bestu útiverum hafa verið með pabba. Þar má helst nefna gönguna á Herðubreið og ferð okkar um svæðið sem afmarkast af Öskju í vestri, Kárahnjúka (Óspillta) í austri og Mývatn í norðri.
Við Erna ætlum að vera dugleg við að ganga í sumar og er stefnan m.a. sett á Heljardalsheiði. Ég setti stefnuna á Glerárdalshringinn í júlí (24 tindar) en ég sé að dagskráin mín og úthaldið leyfir það ekki að þessu sinni. Vonandi kemst ég samt eitthvað í fjallgöngu með Pétri vini mínum og Mása mági mínum. Það er svipaða sögu að segja með marga vini mína, að ég vil helst geta komist á fjöll með þeim. Ég vil geta farið með Ernu í fjallaferð, pabba á hálendið, Ágúst í rjúpu í Dalina og í veiði á heiðar, Hjörleif á Skagaheiðina í veiði, Mása í allskyns veiðar og aðra útiveru og núna um daginn rakst ég á minn gamla góða vin Guðna í Nettó og við ræddum þann möguleika að fara eitthvað upp á við saman.
Kammerkórinn minn yndislegi, Hymnodía, ætlar að hittast í Mývatnssveitinni í maí ásamt mökum. Það verður rosalega gaman og ég hlakka mikið til. Í fyrsta lagi er frábært að umgangast þetta skemmtilega fólk. Við erum búin að eyða mörgum stundum saman á síðustu mánuðum og núna langar okkur til að launa okkar nánustu þolinmæðina með því að fara með þá um helgi til Ernu og Péturs í Reynihlíð. Við ætlum að gista þar í tvær nætur og njóta þess að vera á besta stað í heimi. Hvar er betra að vera á vori en í Mývó? Hvergi, held ég fram. Erna Þórarins er kórfélagi og hún og Pétur maður hennar reka Hótel Reynihlíð. Við hlökkum mikið til söngs, matar, baðs og samveru í Mývetnskri náttúru. Síðan verður maður jú að fygljast með Júróvísjón!
Í kvöld var besta Stúlknakórsæfing ársins. Æfingin gekk rosalega vel og stelpurnar sungu svo vel að ég fékk langvarandi og króníska gæsahúð. Í lok æfingar fórum við upp í kirkju og stelpurnar improviseruðu yfir gamalt finnskt þjóðlag. Það var svona upplifun sem maður fær afar sjaldan. Þær sungu svo yndislega hreint og fallega. VÁÁ!
Á morgun ætlum við Munkarnir að skella okkur í hvíldar- og menningarferð í höfuðborgina. Ég er vanur að fá heimþrá um leið og ég er kominn á Moldhaugahálsinn eða þegar ég kominn í flugstöðvarbygginguna á Akureyrarflugvelli, en það en nú sennilega aðallega vegna þess að ég er svo oft að flækjast einn. Yfirleitt líður mér ekkert sérlega vel í ys og þys borgarinnar, en það er sennilega vegna þess að ég er svo sveitó! Ég er landsbyggðarrotta og er stoltur af því. En samt fer svona landsbyggðar/þéttbýlisrígur rosalega í taugarnar á mér. Ég er á þeirri skoðun að fólk sé ekkert betra á einum stað en á öðrum. Maður getur vissulega gert grín að ákveðnum stöðum og viðhorfum íbúa þar, en málið er að það er alltaf hægt að gera grín af þeim stað sem maður er staddur á og býr á. Maður þar bara smá húmor og sjálfíroníu. Vissulega eru reygvígínar bissí júnó avað verra (með amerrískum framburði skilluru) kúl mar og helst að vera allir eins sko og vesla í sudján, allt leim sem er staðsett fyrir udan mosó og smáralind, o sbrengja barrí kellingar júnó, AKureyringar eru virkilega loKaðir og allt ömurlegt fyrir sunnan, finnst aKuryeri vera miðdePill heimsins, þeir éTa á BauTanum og drekka kók úr BauK með punnnKKTTerað á bílnum. (allt þetta sagt á sjö mínútum) og Húarar (Sér þjóðflokkur) (sorrý Húarar sem ég þekki og tengist) munu aldrei kunna að gefa stefnuljós, stoppa við gangbraut né kunna að leggja bíl, EN!!!!! Það er eitt sem ekki er einu sinni hægt að þrasa um. Veðrið er betra hér á Akureyri en fyrir sunnan Ég er mikið á ferðinni og reyni að líta mjög hlutlaus á málið. Veðrið er best hér á Brekkunni á Akureyri. Oft þega veðrið er yndilegt er skítaveður fyrir austan, stórhríð á Dalvík ófært á Ólafsfjörð, Þæfingur í Hörgárdalnum, rok í Þorpinu og á meðan ég skrifaði þessa setningu var rok og riging, rok og sól, rok og slydda og svo rok og rigning aftur á stófkeflavíkursvæðinu. Ég held ég hafi lent í flugvél u.þ.b. 50 sinnum sl. 6 ár í Keflavík og ég hef einu sinni lent þar í góðu veðri. Og að þessu sinni er ég virkilega ekki að ýkja. Veðrið er meira að segja verra þar en í Reykjavík, og jafnvel verra en á Akranesi!!! Ég fullyrði að núna lít ég algerlega hlutlaust á málin. Ég lenti í smá þrætu við veðurfræðing í fyrra. Hún sagði til að rökstyðja mál sitt (var að reyna að halda því fram að í raun væri þetta allt saman misskilningur að veðrið væri betra hér á Akureyri) að vissulega væru sólarstundir fleiri hér á Akureyri en í Reykjavík, Jú það blési alls ekki eins mikið hér og vissulega væri úrkoman mikið minni, EN, meðalhitinn væri ekkert meiri. Þarna jarðaði ég hana. Það er nefnilega staðreynd að meðalhitinn er jú mældur allan sólarhringinn og þegar heiðskýrt er á sumrin þá er kaldara á nóttunni. En það er miklu kaldara á veturna sagði hún, jú það er rétt, þar sem það er svo oft heiðskírt, logn og frost á meðan það er rok og slydda á strórkeflavíkursvæðinu!!!! Eins og ég hef svo oft tekið fram þá er ég bara að skrifa þetta algerlega hlutlaust og lít afar raunsætt á hlutina
Best að hætta þessu áður en ég móðga alla sem ég þekki, þvottavélin bíður mín full af hreinum en blautum þvotti
góða nótt,
Eyþór
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)