14.8.2007 | 23:16
Kvef
Síðustu daga hef ég hægt og sígandi verið að fá kvef og hélt ég hefði nú náð kveftoppnum í gær en ekki reyndist það nú aldeilis rétt hjá mér því í nótt svaf ég ekki mikið vegna hálsbólgu og því að ég fann hreinlega hvernig horstíflan myndaðist geðslegt ég veit en sannleikur engu að síður. Í dag hef ég verið að bera á mig hið gamla góða Vick krem en það bara virkar lítið sem ekkert og pappírsþurrkur fjúka alveg heilu pakkningarnar. Sko það eru bara nokkrir dagar síðan síðasta kvef fór og ég er tiltölulega nýbyrjuð að taka einar 5 tegundir af vítamínum svo ég hélt að ég væri nú örugg það sem eftir væri hausts og vetrar en neinei.....tja skal nú segja ykkur það. Ekki nóg með það þá hefur mér tekist að smita litla dýrið mitt þannig að hún er með sömu vanlíðanina.......segi nú bara enn og aftur tja.
Fórum mæðgurnar þrjár í myndatöku til Rúnars í dag en Brynja átti s.s. eftir seinni myndatökuna. Hann tók myndir af okkur mæðgunum þremur og svo systrum og svo Brynju í ca 3 dressum og svo flottar myndir allavega þær sem hann sýndi okkur. Fáum svo allar myndirnar á disk í næstu viku og svo veljum við held ég 12 myndir sem við fáum svo í 2 albúm s.s. eitt handa okkur og svo eitt handa pabba hennar og famili. Hlakka til að sjá þær. Ég fékk að vera á vindvélinni og fannst það ekkert smá fyndið þegar hann bað mig um það.
Kíkti svo aðeins með mömmu og systrum til Hildar og svo bara var verið að slaka á seinnipartinn. Vona að helv...kvefið verði orðið umberanlegt hjá okkur mæðgum báðum á morgun. Talaði við einhver Jón barnalækni í dag varðandi lyfjagjöfina hennar Kötlu og ákváðum við að prófa að taka vikufrí frá lyfjunum s.s. frá og með laugardeginum og ef það gengi þá bara gengi það annars á hún að vera á þessu til 11 des en þá ætlar hann að tala aftur við okkur. Væri snilld ef hún þyrfti bara ekki á þessu að halda meira. Alltaf gott að vona.
Tengdó minn á afmæli á morgun tralallaalla þrátt fyrir að hafa haldið upp á það um helgina. Til hamingju með það Nonni minn:)
Sjúlli kveður með hor í stað augasteina
13.8.2007 | 23:32
Fæðingarorlof
Vá ég fór allt í einu að hugsa, geri það nú ekki mjög oft þannig að það telst fréttnæmt fyrst svo er...en já ég fór að hugsa og það eru ekki nema 4 mánuðir þar til ég fer að vinna frá litla krílinu mínu. Finnst þetta hræðilegt er enn ekki byrjuð að njóta þess að vera í fæðingarorlofi kannski svona næstu vikur sem maður fer virkilega að njóta þess. Katla búin að vera lasin alveg þangað til eiginlega núna. Finnst að það eigi að gera konum kleift að vera heim í 2 ár án gríns.
Held að þroskalega hafi börn í raun ekkert að gera á leikskóla fyrr en 2 ára. Þau vita ekki hvað er almennilega um að vera fyrr og ættu að fá að njóta þeirra forréttinda að eyða þessum 2 fyrstu æviárum í faðmi foreldra sinna.
Finnst það flott eins og það er í Þýskalandi finnst ekki allt flott þar en þar er konum sko gert kleift að vera heima og með fínasta kaup þar að auki ekki einhver skít og kanil eins og hér ja nema þú hafir verið í hálauna vinnu þá er það svo sem allt í lagi.
Ef ég væri á þingi myndi ég byrja á því að berjast fyrir þessu........fæ alveg illt í skrokkinn að hugsa um að ég þurfi að fara frá henni, ekki það að pabbi hennar verður í jan og feb í fæðingarorlofi og eftir það ætla ég að reyna að komast annaðhvort á kvöldvaktir á Hliið eða í heimahjúkrun þannig að við þurfum ekki að setja hana á leikskóla fyrr en á öðru ári. En mér finnst samt hræðilegt að þetta fæðingarorlof er að verða búið og ég enn ekki farin að fíla mig í því.
Best að fara að kúra sig hjá litla orminum sínum
Sjúlli kveður ekki sáttur
13.8.2007 | 00:06
Hjólhýsi, tjaldvagnar, húsbílar hvað er málið
Vorum að koma úr ágætis ferð í Sauðhúsaskóg í Borgarfirði þar sem tengdó voru með bústað. Fallegur staður og mikið hægt að gera þarna, en bústaðurinn frekar lítill en eins og sagt er "þröngt mega sáttir sitja" og var það nú einmitt þannig. Fengum mikið og gott að borða og þetta var bara frábært í alla staði.
Þvílík umferð bæði á suðurleið og norðurleið. Hef heldur sjaldan eða aldrei séð eins mikið af húsum á ferðinni hangandi aftan í bílum. Hvað er eiginlega málið. Hvað varð um gömlu góðu útileguna. Hvað varð um að lemja niður hæla og skríða algallaður niður í svefnpoka og vakna með smá hor í nebbanum og rauð eyru. Núna keyrir fólk á risajeppanum sínum með risahúsið aftan í, er þetta ekki að verða heldur ýkt dæmi, ég veit ekki ég hef aldrei verið í þessum pakka en einhvern veginn heillar þetta mig alls ekki. Það var svolítið um að það mynduðust bílaraðir og kannski 20 bílar í röð og pottþétt að af þeim voru 15 jeppar ef ekki meira og með svona lafandi í rassinum. Maður varla sá þetta fyrir 2 árum síðan. Svo komum við á Blönduós og fórum á Pottinn og Pönnuna og ætluðum aldrei að koma litla Passat með engu húsi fyrir á planinu því það var búið að setja svo mörg bílahús á planið að þar var eiginlega komið hálfgert bílaþorp.
Já svona er nú bara Ísland í dag en mér þykir þetta nú samt alveg ótrúlegt. Sök sér með tjaldvagna en hitt tvennt..jahérna og hér. En líklega er ég bara svona hrikalega gamaldags....ekki að ég er ekkert ofsalega mikið fyrir útilegur svona almennt:)
En nóg um þetta raus. Helgin var fín, mikið etið, skal reyndar viðurkenna að ég svaf lítið og var það ofsalega litlu rúmi að kenna með vondum dýnum en þegar maður á orðið hrikalega góðar dýnur og kodda og kaffivél þá eiginlega þyrfti maður að taka allt þetta með sér í ferðalagið. Maður er orðinn of góðu vanur og svo skammast maður út í þá sem eru góðu vanir í tjaldbúskapnum já maður er skrýtinn
Best að fara að sofa klukkan komin langt fram yfir minn normal háttatíma þannig að það er best að skammast í bælið
Sjúlli kveður tjaldlaus og allslaus
9.8.2007 | 10:37
Þvílíkt og slíkt
Hvað er eiginlega í gangi. Á bæjarstjórn Akureyrar að segja af sér út af þessu. Ég skal segja ykkur það. Ég held að flestir hafi verið mjög ánægðir með þessa ákvörðun en ég skil svo sem þá sem reka verslun og þjónustu auðvitað tapa þeir en er þá ekki bara vilji hjá þessum hópi verslunareigenda að reyna að byggja upp fjölskylduhátíð og reyna að laða frekar að fjölskyldufólk en sleppa því að auglýsa þessa sem fjölskylduhátíð og svo er þetta unglingahátíð í meirihluta.....mér finnst líka fáránleg rök að koma með að fyrst við neitum þessum aldurshóp að koma hingað til að vera fullir og pissa og kúka í garðinn minn hvernig við ætlum að geta boðið þennan sama aldurshóp velkominn hingað í bæinn í framhaldskólana okkar og háskólann ... einu orði sagt fáránlegur samanburður.
Þetta er nú bara mín skoðun og þarf alls ekki að endurspegla skoðun annarra Akureyringa og sem betur fer þá á mér að vera frjálst að hafa mína skoðun.
Ég er himinlifandi sæl með þessa helgi núna eins og hún var. Góð bæjarstjórn alveg til fyrirmyndar....hipp hipp húrra fyrir bæjarstjóranum:)
Sjúlli kveður sáttur við lífið og tilveruna
![]() |
Hvetja til afsagnar bæjarstjórnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.8.2007 | 02:07
Fyrirsögn vantar
Fátt að segja en eins og oft áður þá kemst eitthvað hérna á blað ef blað skal kalla, síðu kannski frekar Vorum hjónin áðan að horfa á mynd sem heitir Borat og ég skal segja ykkur það að ég meig á mig af hlátri yfir einu atriði og ég hreinlega skora á fólk að horfa á þessa mynd, hneykslar eflaust marga en my gad hvað hún er fyndin. Á samt eftir að horfa á restina af henni, tókum pásu hjúin þar sem litli heimiliskisinn okkar hann Óskar Hafsteinn kom í leitirnar
Verslunarmannahelgin að baki sem er vel fór vel fram og vona ég svo sannarlega að hún verði eins frábær næsta sumar bara reyna að auka fjölskyldufólk í bæinn og þá er þetta fínt. Þannig er það nú. Var beðin um að koma í viðtal á Rúv eftir að ég bloggaði um verslunarmannahelgina en ég vil geta bloggað án þess að þurfa að fara fram fyrir alþjóð og styðja mínar skoðanir, öllum er frjálst að hafa skoðanir finnst mér en stundum er það samt ekki staðreyndin, en nóg um það.
Erum að fara í Borgarfjörð um helgina, Brynja fer til pabba síns á ættarmót, Rakel fer með okkur og fer svo til Sigrúnar móðursystur sinnar og verður samferða henni út. Þannig að þessari heimsókn er lokið en kemur aftur um jólin. Það er búið að nefna systir hennar og var hún nefnd Garbríella Rebekka Kristrún Johansdottir Kolström já takk fyrir góðan dag svo heitir hin systirin bara Katla ekki að það er nóg:)
Hverju get ég logið fleiru, tja eg veit ekki held að það væri heillavænlegast fyrir mig að fara að hrúgast í rúmið og sofa eitthvað í hausinn á mér en stundum koma svona moment að það er alveg sama hversu þreyttur maður er að þá nennir maður engan veginn í rúmið það er bara þannig. En ég held samt að ég ætti að gera það og blogga aftur þegar ég hef eitthvað að segja af viti.
Sjúlli kveður tómur algjörlega
5.8.2007 | 09:19
Frábær ákvörðun Akureyrarbæjar
Þeir sem í fyrsta lagi búa ekki hér á Akureyri ættu held ég að byrja á því að kynna sér málið áður en þeir fara að æsa sig yfir þessu öllu saman. Í fréttum undanfarið er búið að tala við þá sem græða á þessari hátíð hér á Akureyri og eðlilega eru þeir fúlir en afhverju er ekki talað við hina almennu íbúa Akureyrar og sjá hvort þeir eru ekki ánægðir. Breytir kannski ekki miklu fyrir þá sem búa í hinum enda bæjarins en ekki í nálægð við miðbæinn eða renneríið sem skapast niður brekkuna.
Við höfum síðustu sumur orðið fyrir því að það sé stolið úr garðinum hjá okkur og líka að fólk hafi verið að gera þarfir sínar í garðinum líka. Þetta er ein af þeim ástæðum sem ég vil sjá þessa hátíð í þeirri mynd sem hún einmitt er þessa helgi. Við hjónin lögðumst til svefns á föstudagskvöldið og bjuggum okkur undir það að sofa nákvæmlega ekkert því það hefur jú verið venjan síðustu ár en við vöknuðum svona endurnærð um morguninn og ekki orðið var við neitt, rétt rumskað einu sinni við að einhverjir gaurar voru að labba heim sem er bara eins og venjulega um helgar að sumri.
Það er talað um þessa ákvörðun eins og þetta sé einhver rasismi en þetta er bara common sense enda hefur held ég hvergi í fjölmiðlum heyrst frá þessum aldurshópi eða þeir eitthvað verið að tja sig um að þeir séu ósáttir.
Ég segi bara að loksins er þetta að verða eins og fjölskylduhátíð sem þetta á að vera því þannig er það auglýst en ekki hátíð þar sem við horfum á unglinga allt niður í 13 ára aldur dauðadrukkna eins og hefur komið fyrir undanfarin ár. Þetta er held ég léttir fyrir alla lögregluna, bæjarbúa og þegar upp er staðið alla.
Menn hljóta að geta fundið aðrar gróðaleiðir en dauðadrukkna unglinga því jú það hlýtur að vera að mesti gróðinn komi af þeim miðað við hvernig er látið.....
Sjúlli kveður sáttur við lífið og tilveruna
![]() |
Meirihluti bæjarstjórnar gegn takmörkunum á tjaldsvæðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.8.2007 | 21:51
Heima er best
Komin heim tja það er nú fréttnæmt. Renndum í hlað um hálf sjö en við lögðum ekki af stað úr borginni fyrr en um eitt leytið þar sem húmóðirin (frumleg) á heimilinu bara varð að komast á útsölu í Intersport haha en hún fann nú samt ekkert af viti þar. Þessi ferð var mjög góð og íbúðin sem við leigðum var á frábærum stað og rosalega hugguleg og nóttin bara á 4500 kr efast ekki um að við eigum eftir að nýta okkur þetta aftur. Eina að sjónvarpið virkaði ekki en það var bara gott þegar upp var staðið því við spiluðum og spjölluðum í staðinn fyrir að góna á tV. Stelpurnar voru ofsalega ánægðar enda maraþon hlaup í kringlunni og smáralind en við hjónin fylgdum þeim eftir svona í vissri fjarlægð ég missti mig að vísu smávegis en það var frekar nett
Katla var frábær í ferðinni góð í bílnum og svaf bara eins og stjarna á nóttunni. Og var í alla staði mjög meðfærileg, sat í vagninum eða lág eftir því sem við átti........
Vorum ekkert á spes tíma því að annaðhvort er að koma í upphafi útsölutímans eða þegar nýjar vörur eru komnar í hús, en það var eiginlega vonlaust að fá föt í Kötlu stærð. Náði samt að þefa uppi nokkra boli og buxur og svo í Intersport buxur og bol skal segja ykkur það. En í borginni eru sko útsölur ekki eins og hér þar sem það er kannski 30% afsláttur á meðan að það er bara 70% afsláttur í borginni. Já skal segja ykkur það.
En allavega held ég að allir hafi verið sáttir við þessa ferð og mér fannst alveg ofsalega gott að komast í burtu frá Akureyri og þó svo að það hafi verið þeytingur og ég hafi yfirleitt alltaf komið þreytt úr Reykjavík þá kom ég núna nokkuð slök bara skal ég segja ykkur.
Svo um næstu helgi s.s. ekki þessa heldur næstu er 60 ára afmæli hjá tengdó þannig að enn verður maður að fara af stað í bíl. Kvíði pínu fyrir því ég verð svo hræðilega slæm í skrokknum, því þegar hálsinn verður slæmur þá fæ ég verki í alla liði og það er eins og ég sé með beinverki allsstaðar og þannig verð ég þegar ég sef í vondum rúmum....púff...
Sjúlli kveður slakur á sál en spennt á líkama
29.7.2007 | 21:41
Bíddu bý ég ekki Íslandi eða.......
Vá hvað manni brá þegar fréttatíminn byrjaði. Fyrsta mál var morð um hábjartan dag í Rvík, annað mál var banaslys í umferðinni og sá 5 á árinu og þriðja mál var að einhverjuð klikkuð gella beit eyrað af annarri líklega verið aðdáandi Tysons. Ég meina hvað er að ske á okkur litla saklausa landi. Morð og svo sjálfsvíg og það vegna þess að gaurinn var farinn að deita fyrrverandi konuna hans. Jahérna afbrýðisemi getur verið hættuleg eins og reyndar hefur oft sannast.
Fengum góða heimsókn í dag en það voru Pétur Halldórs og Jóhanna konan hans. Hittumst held ég of sjaldan, fólk í dag er orðið eitthvað svo bissí og hefur lítinn tíma til að rækta vináttu, ef maður er með fjölskyldu, í vinnu og skóla plús að eiga ungling sem þarf að hafa stundum svolítið fyrir þá er eiginlega lítill tími í eitthvað meira það er bara þannig. Svo eins og hefur verið hjá mér eiginlega síðan Katla fæddist þá hef ég lítið farið og það sem ég hef farið er svona eitthvað sem virkilega er nauðsynlegt skotist í búð eða fengið mér göngutúr bara til að fá að vera aðeins ein því ég þarf þess stundum:) Þannig er það
Kallinn kallar vill fá mig við hlið sér að horfa á mynd í tv..
Sjúlli kveður með bæði eyrun á hausnum "ENNÞÁ"
26.7.2007 | 22:05
Slóvenía yndislegt land
Erum hjónin að velta fyrir okkur sumarfríi næsta sumar. Höfum lítið getað gert fyrir dætur okkar og okkur í sumar þrátt fyrir gott frí þannig að okkur langar að bæta okkur það upp næsta sumar og hafa svona íbúðaskipti og jafnvel bílaskipti við einhverja fjölskyldu sem langar að heimsækja Ísland og Akureyri.
Eyþór er að verða kominn með slóvneskt ríkisfang eftir að hafa farið þangað dálítið oft en ég hef komið þangað einu sinni og ég var ekki farin þaðan þegar mig var farið að langa þangað aftur. Fallegt land virkilega og fólkið yndislegt. En það er s.s. svona það sem við erum að velta fyrir okkur að fara til Slóveníu, kemur líka til greina að fara til Ítalíu eða Frakklands. En málið með Slóveníu er að það er svo ofsalega ódýrt að lifa þar, þannig að vera með 5 manna fjölskyldu er ekkert dýrt og maður getur alveg leyft sér ýmislegt. En þetta er allt í skoðun erum komin með fólk í að skoða þetta fyrir okkur og líka búin að skrá okkur fyrir svona heimilisskiptum á netinu. Bíðum spennt. Stelpunum finnst þetta líka voða spennandi og verður þetta endalaust gaman ef af verður sem verður ef einhver vill skipta við okkur.
Buðum Sigrúnu og Snorra í heimagerðar pizzur í kvöld og var það mjög gaman. Sigrún hefur verið að leysa Eyþór af hérna í júlí en er í námi í Danmörku og eru þau því að fara út aftur í byrjun ágúst. Hún er líka skólasystir hans úr Tónskóla Þjóðkirkjunnar þannig að þau hafa þekkst mjög lengi.
Katla ekkert verið spes í dag frekar erfitt lífið en samt betra en áður en hún fékk lyfið, bara eitt skref í vitlausa átt í dag en ég vona að það fari bara aftur fram á við á morgun. Sefur mjög laust núna og er meðvituð um ef ég fer og vaknar strax þannig að ég ligg hér með tölvuna í rúminu og blogga gott mál
Erum að spá í að borgarferð á þriðjudag. Erum komin með íbúð í miðbænum sem kostar 4500 kr nóttin ekkert verð. Ætlum bara að fara á þriðjudag og leggja af stað aftur snemma á fimmtudagsmorgun til að sleppa við verslunarmannahelgar umferðina. Rétt að leyfa stelpunum að kíkja í búðir. Annars er Rakel að fara á Búðardal á morgun og verður líklega þangað til að við förum suður en það á að visu eftir að koma í ljós.
Best að fara að forvitnast á netinu eitthvað
Sjúlli kveður á leið í borg Vilhjálms
25.7.2007 | 23:40
Þeir deyja ungir sem guðirnir elska
Svo er allavega sagt, en hvað um þá sem deyja gamlir elska guðirnir þá ekki? Ég eiginlega þoli ekki þetta orðatiltæki og get ekki skilið afhverju guðirnir elski bara þá ungu sem eiga lífið fyrir sér og vilja guðirnir að þetta fólki fari yfir móðuna miklu? Ég veit ekki...en allavega þá finnst mér svo hræðilegt að hugsa um hversu margt ungt fólk deyr úr krabba, fólk sem á lítil börn sem aldrei koma til með að kynnast mömmu eða hafa mömmu/pabba til staðar þegar þau gifta sig, eða eignast sjálf börn, allt þetta sem manni sjálfum finnst svo mikilvægt. En málið er að enginn veit hver er næstur í þessum efnum, bílslys gera ekki boð á undan sér frekar en önnur slys, hef alltaf sagt að ég get passað sjálfan mig í umferðinni en ég get ekki passað aðra. Krabbinn stingur sér niður þar sem honum hentar, hvort sem þú ert ung, eða gömul, lítil eða stór. Margar ungar konur búnar að deyja úr krabba undanfarið og margar sem eru að berjast svo ótrúlega jákvæðar að ég var að hugsa, ef ég vissi að ég væri með krabba og ætti kannski ekki langt eftir gæti ég verið svona jákvæð...ég veit það ekki, eða er jákvæðnin kannski bara á yfirborðinu?
Dauðinn er eitthvað sem ég hræðist í dag finnst það hræðileg tilhugsun ef eitthvað kæmi fyrir mig, of ung á fallegar dætur og góðan mann og góða fjölskyldu. En enginn veit sína ævina fyrr en öll er og finnst mér það mun gáfulegra orðatiltæki heldur en hitt .....Er líf eftir dauðann? Ég held það og er það mín trú. Þegar ég var lítil var ég viss um að amma mín væri að hlaupa um á grænu túni og allt fullt af fallegum fuglum og svoleiðis, einfaldlega afþví að mamma átti svo fallega englamynd sem sýndi eitthvað svona. En er þetta þannig? Vitum það víst ekki fyrr en við erum farin. Trúi ekki á að þegar maður sé að deyja að maður sjái "ljósið" held að það sé ekki þannig en hver hefur svo sem sína skoðun á því. En það eina sem ég veit að ég trúi pottþétt að það er líf eftir dauðann en hvernig líf veit ég ekki.
Sjúlli kveður í þungum þönkum