22.1.2009 | 21:44
Helvítis fokking fokk
Er allt að verða vitlaust á litla, hvíta, saklausa, rólega íslandinu okkar. Ekki það að ég styð þessi mótmæli 100% en mér finnst atburðir næturinnar svona ganga nokkrum hælum of langt. Kasta þvagi og saur í lögguna sem er bara að vinna vinnuna sína, sýnist eins og einhverjir séu að hefna sín á löggunni, spurning að þessir mótmælendur sem gera svona, viti afhverju verið sé að mótmæla. Skemma fyrir hinum sem eru að mótmæla ástandinu í þjóðfélaginu á friðsaman hátt. Pjúff eins og mig langaði alltaf að verða lögga þá langar mig það ekki lengur. Vona að stjórnin springi núna fyrir helgi eða allavega fljótlega eftir það.....þarf að gera eitthvað í málunum, ekki bara hunsa almenning og gefa engin svör á meðan að heimilin okkar fara í hund og kött.......en nóg um það
Hér er skítaveður, rigningarsuddi og rok, bara leiðindi og held svo að það eigi að snjóa á morgun eða allavega að kólna hvað er málið með það, þarf að hringja í veðurguð og ræða aðeins við hann, sendi honum beiðni í kvöldafþví ég er svo gríðarlega trúuð líka múhaha.
Katla hin hressast í dag og ég eiginlega að mestu ekki vitað af henni, dundaði sér við að gefa dúkkunni sinni og lita og svona, ekkert DVD gláp eins og verið hefur svolítið mikið af undanfarið þannig að kannski hefur rassinn verið að pirra hana meira en mann grunaði. Ég sjálf svaf lítið í nótt vegna vökva sem lak úr eyranu og verkja, enda svaf ég yfir mig í morgun, slökkti bara á símanum og svaf til 07.30, hentist í föt, rak Brynju á lappir og ég náði að mæta í vinnuna 08.05 og var þá búin að vara þær við að mér seinkaði. Eyþór sá um Kötlu:) Agalega vont að sofa svona...skellti mér svo í ljós eftir vinnu og sótti svo gorminn litla. Jájá lífið gengur sinn vanagang, búin að sjá kallin í 20 mín í dag og efast um að ég sjái hann eitthvað meira þar sem hann kemur líklega ekki fyrr en ég er sofnuð.
Brynja fór til Hreins H einkaþjálfara í dag og hann setti upp matar- og styrkingarprógramm fyrir hana en hún þarf að bæta aðeins við sig í styrk og fer hún einu sinni í viku í ræktina til að sinna þessu, áhuginn og metnaðurinn alveg að drepa hana sem er gott, hana langar að ná lengra í boltanum og gerir allt til að hjálpa sér þangað:) Er að hugsa um að þegar ég er búin að klára aðgerðina og má fara að æfa að fá hann til að gera svona prógramm fyrir mig, kostar á bilinu 3-5 þús held ég að Brynja hafi sagt, á eftir reyndar að fá reikning fyrir þessu:) Já svoleiðis er það nú.
Bóndadagur á morgun, spurning hvort ég geri ekki eitthvað fyrir pabba í staðinn fyrir kallinn þar sem hann verður á æfingum með symfóníunni (hef ekki hugmynd um hvernig þetta orð er skrifað) en kannski fær hann eitthvað góðgæti á morgun nú annars bara á sunnudag eftir tónleika.
Er að hangsa og bíða eftir 22 fréttunum, langar að sjá hvort eitthvað nýtt sé að gerast í mótmælum og stjórn klakans ...spennandi. Minn maður Steingrímur Joð tja hann er bara bestur enda Þingeyingur það segir nú margt um manninn:)
O-sjúlli kveður með mótmælafánann að húni
20.1.2009 | 22:25
Austurvöllur here I come
Hefði alveg viljað vera á Austurvelli í dag, mótmæla þessu óréttlæti sem er látið fjúka yfir mann og maður bað ekki um eða átti neinn þátt í, maður getur orðið reiður. Skil ekki afhverju þetta lið tekur ekki mark á þjóðinni og segir af sér. Vona að það verði kosningar í vor, fer að verða óbúandi á klakanum með þessu áframhaldi.
Fór upp í íbúðina í dag til að kanna hvað á eftir að gera og það er slurkur, við Hildur ætlum að fara í það um helgina afþví að við erum svo sterkar aðallega ég samt þar sem Hildur er baksjúklingur, hún fær að vera bílstjórinn ég er nefnilega arfaslök að keyra með kerru. Ætlaði svo að lesa af rafmagnsmælinum en hann var týndur og maðurinn sem er yfir húsfélaginu er líka týndur en ég ætla að reyna á morgun aðra tilraun til að finna hann.
Kötlu líkaði ekki íþróttaskólinn, enda var ég ekki hissa, var bara allt of flókið fyrir hana en við ætlum að reyna aftur í haust. Gerir ekki annað núna en að fara í kollhnís upp í rúmi og gerir það svo ótrúlega fínt, nema hún er glanni af verstu sort og þá meina ég verstu sort. Nokkrum sinnum búin að halda að nú væri hún búin að hálsbrjóta sig en seisei nei mín stendur upp og kastar sér aftur snilld.
Á að fá námslaunahækkun núna um mánaðarmótin en það stefnir allt í það að ég fái hana ekki, verð ég brjáluð uuuuuu já ég á þetta...En ætla nú ekki að stressa mig strax á því.
Haraldur Hauks hringdi í dag, ég var nefnilega efins um að ég mætti fara í aðgerðina útaf þessum endalausu sýkingum, en hann sagði að það ætti að vera í lagi, svo eftir 29 jan verð ég með fallega fætur..hlakka til þegar það verður búið hata nálar þó svo ég geti sprautað aðra vil ég helst ekki að þær nálgist mig. Verð í 2ja vikna fríi þá og líklega fer ég svo á geðdeildina þar sem ég verð orðin klikkuð á því að vera í fríi. Vorum látnar draga um sumarfrí og ég dró seinna frí en langar samt í fyrra frí þar sem Eyþór er í fyrra fríi ætla að múta einhverri til að skipta spurning hvort það gangi.
Gott að vera farin að vinna aftur, finn samt enn vel fyrir eyranu en augað orðið gott, en finn samt hellings mun. Katla líka að verða allt önnur, hefur greinilega verið búið að há henni dálitið lengi, því allt í einu getur hún dundað sem hún gat ekki áður, kannski er hún líka bara að þroskast þessi elska.
Ætla ekki að segja neitt meira í bili enda bara tóm steypa sem kemur upp úr mér, farin að lesa rómans
O-sjúlli kveður nánast ósýkur
18.1.2009 | 14:40
Upp, upp mín sál og allt mitt geð
Snjóar og snjóar hér, ég sem hélt að nú færi bara að vora. Greinilega eitthvað misskilið Feðgin fóru í langan göngutúr í morgun og enduðu í kaffi hjá Pétri, Jóhönnu og co, tók á móti litlum köldum snjókalli um kl 12 en ofsalega svöngum snjókalli. Sefur núna, er svolítið slöpp af sýklalyfjunum en vonandi ber þetta þann árangur sem það á að bera. Á meðan náði ég að gera við einar buxur af pabba, setja í og hengja upp úr einni vél og setja í eins og einn þurrkara. Hanga á netinu og borða töluvert sleppi því nú ekki, hef borðað óhemju magn af sælgæti sl. daga líklega bara sökum leiðinda, en núna verður ekki einu sinni keypt nammi, enda hef ég verið eins og geðsjúklingur i morgun hlaupið í alla skápa og reynt að þefa upp súkkulaði, en eina sem ég fann voru loftkökur sem ég by the way ÁT:)
Já lífið er ljúf skal ég segja ykkur. Fer að vinna á morgun, hlakka til að komast aftur út, verð bara að hafa band yfir eyranu þar sem það er flakandi sár frekar ljótt:) Brynja er að keppa með meistaraflokk í þessum töluðu orðum á móti 3 flokki karla hjá KA, vona að þær vinni, skýtur egóinu hjá minni svolítið upp sem er bara gott.
Katla náði að lemja makkann aðeins í gær og við það rugluðust allir litir í tölvunni, er með mann í borginni hjá apple þar í að redda þessu en að virðist ekki ganga sem skildi þar sem enginn skilur hvað gerðist, þetta á víst ekki að geta gerst skildist mér..
Ætlum hjúin að elda okkur kjöt og kjötsúpu í kvöld, getur ekki verið betra í snjókomunni *slurp*
Ætla að leggjast hjá lillunni minni og lesa smá rómantík:)
O-sjúlli kveður
16.1.2009 | 21:44
Nú fer allt upp á við "I hope"
Vonandi er þetta endirinn á annars þokkalegri veikindatörn. Ég er s.s. með streptokokka í eyranu og það er í augnablikinu eins og á fíl en ég er komin á enn eitt sýklalyfið (það þriðja síðan 23 des) og nú stefnir þetta allt í gleði. Litla genið mitt var líka með streptokokka á ögn viðkvæmari stað eða í rassinum sínum og er komin á sýklalyf líka. Núna s.s. er ekkert sem heitir þessu verður að ljúka núna takk fyrir og amen:)
Sit ein hérna var að koma úr þvílíkt heitu og góðu baði. Eyþór fór að æfa sig, genið litla sefur og Brynja fór í Brynju með vinkonum sínum að fá sér ís. Bara næs, skaust á bókasafnið í dag til að sækja mér bækur til að lesa þegar ég vakna upp á næturnar sem nú fer að enda af því að ég ætla að láta þetta verða restina jájá bara jákvæð núna sko.
Íþróttaskólinn byrjar í fyrramálið og hlakkar mig mikið til haha mætti halda að ég ætlaði að fara að sprikla, hlakka bara svo til að sjá Kötlu fara hamförum eins og ég býst fastlega við að hún geri þegar mesta feimnin er farin af henni. Síðan á eftir er kaffi og bakkelsi í Einholtinu hjá Hildi og dætrum:)
Hlakka svo til að geta farið að hlaupa og lyfta get varla beðið, næ kannski viku áður en ég fer í aðgerðina, tek svo bara hrottalega á því eftir hana:)
Brynja var á landsliðsæfingu á þriðjudaginn, en þjálfarinn kom hingað og henni gekk ágætlega, þarf aðeins að bæta við sig í þreki. Á svo að spila leik með meistaraflokk á sunnudaginn gegn 3 flokki stráka verður gaman að sjá hvernig það gengur:)
Datt í mig fluga í gær að baka mér leiddist óstjórnlega, svo ég fór og bakaði skúffuköku og líka grófar bollur já svona dettur dugnaðurinn í mig annað slagið
Æi hef ekkert meira að segja
O-sjúlli kveður allur á uppleið
16.1.2009 | 03:13
Svekkjandi...
Djöfuls......vaknaði kl 02 og alveg að farast í eyranu og auganu líka. Var orðin þokkaleg í gær en svo núna er ég hreinlega að drepast, greinilega mikil bólga og sýking í eyranum er með hjartslátt í því. Eins gott að þær í vinnunni sögðu mér í gær að mæta ekki í dag, annars hefði ég þurft að hringja. Ég sem ætlaði í aðgerð 29 jan sé nú ekki framá með þessu áframhaldi að þeir vilji eitthvað krukka í mig ef þessu fer ekki að linna djöfuls...er hrikalega svekkt núna og get ekki sofið verra að liggja útaf því þá er meiri þrýstingur...
Ætla að fara að gráta smá stund athuga hvort mér líði ekki betur bara
O-sjúlli kveður alveg kominn með yfir sig nóg
14.1.2009 | 22:36
Dagurinn í hnotskurn
Setti auglýsingu í dagskrána í dag varðandi það að íbúðin í Smárahlíðinni væri til leigu og það barasta svona svínvirkaði, tveir skoðuðu hana áðan og vildu hana báðir en sá sem var fyrri til fékk hana:) Ætla að ganga frá samningi við gaurinn á föstudag, hef aldrei gert húsaleigusamning en hversu strembið getur það verið hmmmm. En ef einhver vill kaupa íbúðina er hún til sölu og koma svo.....hægt að skoða myndir inni á netinu af henni mjög flott...
Systur og Hilla komu í dag, systur voru í góðu stuði og voru hjá mér á meðan Hildur fór að erindast, mikið gaman hjá þeim, slegist, hlegið og volað jájá allur skalinn tekinn í þeim efnum. Pabbi kom líka og stoppaði bara lengi sá gamli alveg slakur. Ætla að gera við buxur fyrir hann á morgun ef ég verð með sjónina í lagi annars held ég að augun séu að koma til, bara eyrað sem er til trafala ennþá en fæ að heyra frá Pétri á morgun, ætlaði að ráðfæra sig held ég við háls- nef- og eyrnalækni. Verð í fríi á morgun í vinnunni en svo bara hendist ég í vinnuna mína hvort sem hlutirnir verða orðnir góðir eða ekki er að klikkast á þessu.
Katla byrjar í íþróttaskólanum á laugardaginn, byrjar kl 9 jájá engin slökun á þeim bænum, er 1 klst sem þetta er og verður eflaust mikið fjör hjá minni, byrjuð að æfa sig í því að fara í kollhnís og er ekkert smá montin þegar það tekst sem er reyndar bara nokkuð oft. Er samt gríðarlegur glanni og hendir sér bara á hvað sem fyrir er svo það er eins gott að það sé mikið af dýnum í Síðuskóla:) Verður ofsalega gaman. Man þegar Brynja fór henni fannst svo gaman og hefur ekki stoppað síðan. Byrja nógu snemma þá kviknar áhuginn vonandi.
Feðgin eru farin að sofa, Katla sofnaði um kl 21.30 verð líklega að fara að taka af henni daglúrinn eða allavega að stytta hann, miðað við hvað hún er farin að sofna seint á kvöldin, er samt alltaf vöknuð kl 7. Eyþór var að vinna til kl 19.30 og fór svo að sýna íbúðina og kom heim kl 22.00 greyið kallinn alveg sprunginn á því. Svo mikið að gera á morgun líka að hann fer kl 5 og ég sé hann ekki fyrr en annaðkvöld einhverntímann jahá.
Best að hætta og fara að gera eitthvað annað kannski lesa aðeins....
O-sjúlli kveður *blingbling*
14.1.2009 | 08:38
Kvartanablogg Ernu
Mynd úr símanum mínum, af litlu afastelpunum í kaffiboði hjá afa:)
Svaf eins og engill í nótt, vaknaði meira að segja í þeirri stellingu sem ég sofnaði í. Fór til Péturs í gær og sogaði hann úr eyranu á mér (gad hvað það var sárt, sveif út í smá stund::) og ég er s..s með miðeyrasýkingu og verulega bólgna hljóðhimnu og virðist sem sýklalyfin hafi ekki náð að laga það. Tók strok og sendi í ræktun og verð ég bara að vera með sárt eyra þangað til kemur úr því. Tróð svo tveimur gulum eldspýtum (leit þannig út) upp undir augnlokin á mér og sagði mér að blikka (halló mér leið eins og Tomma í Tomma og Jenna) og þá urðu augun gulleit og þá s.s. settist þetta gula í sárin á augunum. En ég er með sár á báðum augum meira þó á öðru enda í dag sé ég bara allt í þoku með því og líður eins og ég sé með heilan eldspýtustokk þarna inni. En fékk dropa sem vonandi laga þetta. Finnst þetta bara ömurlega leiðinlegt get ekki unnið svona en vonandi fer þetta að koma.
Katla fór til Andreu og fékk krem á bossann sinn var mjög bólgin og með sár, og var tekið strok til öryggis. En hún er spræk endalaust spræk. Sátum hérna mægður í mest allt gærkvöld og vorum í dúkkuleik sem byggðist á því að mamman átti að klæða dúkkuna í og úr minnst 100 x og athuga hvort hún væri búin að kúka s.s. þefaði 100 x. Fyndin, hún er að komast í svona mömmuleiksfíling. Sofnaði ekki fyrr en kl 9.30 eða það heldur mamman því það síðasta sem ég man eftir er að hún sat í rúminu og var að lesa fyrir mig:)
Eyþór fór í morgun kl 05 að æfa sig, mikið að gera í vinnunni núna, mikið af jarðaförum og svo bara þessi hefðbunda vinna hans sem hann þarf að sinna í viðbót við æfingar fyrir tónleikana. Vona að verði einhver tími fyrir hann að þessu loknu til að hvíla sig.
Er að spá í að fara að horfa á einhverja mynd með öðru auganum haha í orðsins fyllstu merkingu.
O-sjúlli kveður blindur á öðru
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2009 | 04:27
Rauðeygður andskoti
Sit hér í myrkrinu í stofunni og kl er 04.17 þakka kærlega fyrir. Veikindi uuuuu já eiginlega, ekki með hita og neinu slíku, heldur eru augun í mér við það að hverfa ofaní tóftirnar og ég þoli ekki birtu, rauð eins og í sjálfum anskotanum, grenja út í eitt og ef ég loka augunum lengur en nokkrar sek í senn tjá þá verð ég að opna augað með handafli og verkir ójá. Eyrað tók líka upp á því að leka aftur með tilheyrandi kláða og óþægindum, eins gott að ég á tíma hjá dr. Pétri á morgun. Fer með Kötlu til Andreu kl 9.30 og vonandi finnst einhver lausn á hennar vandamáli.
Fór í vinnuna í gær en held ég passi á vinnuna í fyrramálið, betra að sjá skjólstæðinga sína heldur en ekki og líka bara vil ekki hrella þá með þessu útliti. Hlýt að vera búin með minn kvóta í bili get svarið það.
Þoli ekki þegar ég gleymi að setja tölvuna í hleðslu það bara er óþolandi sérstaklega þegar maður er vakandi eins og núna. En ég fer nú að væflast í bælið og reyna að fá Óla minn lokbrá til að hrista smá svefnduft í augun. Var bara orðin frekar pirruð á því að liggja í rúminu og hlusta á feðgin hrjóta í takt, skemmtilegt.
Mikið að veltast um í kollinum á mér þessa dagana varðandi framtíðina, veit ekkert hvað verður en vonandi eitthvað skemmtilegt, ég á mér lítið leyndarmál er það ekki bara fínt Allir þurfa að eiga smá leyndó fyrir sjálfan sig.
Polo fékk nýja bremsuklossa í gær og varð þar með aftur pæjubíll, en reyndar er einhver hvarfakútur ónýtur í honum en það er hluti af pústinu og nema hvað dýrasti hlutinn af pústinu þannig að það þarf að laga það við tækifæri. Ætla svo að reyna að lauma mér í skúrinn hjá Óskari Pé fljótlega og bóna dýrið. Agalega skítur jafnt að utan sem innan og það gengur ekki í svona skutlubíl:)
Best að fara að hlusta á feðgin hrjóta eins og eina sónötu og láta mig dreyma um eitthvað fallegt og gott
Ofur-sjúlli kveður blindur á köflum
10.1.2009 | 08:04
Ný tækifæri
9.1.2009 | 09:59
Letidagur í dag:)
Hef ekki upplifað svona leti síðan tja það eru að verða tvö ár síðan held ég:) Katla fór á Bubbakot og ég er heima í veikindafríi og ákvað að gera EKKERT. Þó svo að ég sé heima lasin ein þá fer ég alltaf að gera eitthvað, setja í vél, taka niður jólaskrautið og svona það sem þarf að gera og allt í einu er Katla bara komin heim og enginn tími til að vera veikur. Ákvað núna að hafa þetta öðruvísi, það er allt í drasli (hef samt smá samviskubit yfir því) það þarf að þvo þvott (líka smá ssbit) og fleira, en ég ligg upp í rúmi með tölvuna, kaffibolla, súkkulaði, bók og hitapoka og ætla að vera hér allavega á meðan þetta fer ekki að valda mér leiðindum:) Eyrað er ögn að skána, svaf t.d. í alla nótt án þess að þurfa að liggja í einhverri furðulegri stellingu eða fara fram og fá mér verkjalyf. Á samt enn erfitt með að tyggja og opna munninn upp á gátt en núna hlýtur þetta að fara að koma, enda á fimmta degi sýklalyfja, samt finn ég að jafnvægið er eitthvað ekki eins og það á að sér
Sá svo á mbl.is að inflúensan er byrjuð að stinga sér niður, skyldi ég ekki pottþétt eiga eftir að fá hana tja maður spyr sig, hlýt að vera búin með kvótann núna trúi ekki öðru.
Búin að lesa mikið undanfarna daga, keypti mér eina bók fyrir jólin, fékk svo eina í jólagjöf, keypti mér svo aðra í fyrradag og búin með allar þessar, þannig að ég er komin í að lesa unglingabókmenntirnar, var t.d. að lesa eina sem heitir Senjorítur með sand í brók og ég get svarið það ég emjaði úr hlátri á köflum. Er svo að fara að lesa aðra sem ég man ekki hvað heitir.
Náði á ritara Andreu barnalæknis sem sagði að Andrea myndi hringja í mig á mánudag, en Katla hefur verið með töluvert blóð í hægðum undanfarið og grætur mikið á meðan hún gengur örna sinna. Komin með sár sýnist mér og ég get ekki lengur látið krílið kveljast svona, hefur átt vanda til að hafa blóð í hægðum síðan hún fæddist en það var alltaf skrifað á að slímhúðin væri svo viðkvæm afþví að hún var með bakflæði en núna er að verða komið ár síðan hún hætti á lyfjum vegna bakflæðis þannig að ekki ætti það að geta verið því um að kenna. Ældi svo frekar en ekki í fyrrakvöld þannig að hún var heima hjá mér í gærmorgun en var eiginlega ekkert lasin nema bara að það var svo sárt að kúka. Greyið litla vona að Andrea hafi einhver ráð með að kíkja á hana. Finnst svolítið erfitt að ná á barnalækni hér, nema maður fari og bíði í marga klst uppi á slysadeild.
Rakel stjúpdúllan mín er farin, skrýtið að hafa hana ekki hérna, er orðin svo ótrúlega breytt bara frá því í sumar. En hún ætlar að koma í sumar og vinna hérna á klakanum, verðum bara að finna einhverja vinnu fyrir hana og krossa putta að það hafist.
Brynja var í viðtali hjá kennara í gær og fékk einkunnirnar sínar og þessi elska var með hæstu meðaleinkunn í bekknum eða 9,1 og hátt yfir meðaltali bekkjarins með allar sínar einkunnir. Sverrir umsjónarkennarinn hennar var mjög ánægður með hana og sagði henni að henni stæðu allar dyr opnar alveg sama hvaða svið hún myndi velja sér. Hún var eðlilega mjög glöð með þetta og sá að hún þyrfti ekki að fá nema 2,5 í stærðfræði eftir áramót til að vera save inn í MA haha....en mér heyrist hún nokkuð ákveðin að fara þangað..Hugsa að hún fari á félagsfræðibraut eða náttúrufræðibraut kemur í ljós. En svo kannski ákveður hún á lokasprettinum að fara í VMA og það er hið besta mál líka, báðir góðir skólar með öflugu félagslífi sem er líka mikilvægt að geta tekið þátt í:)
Polo fer á verkstæði í dag, skipta um bremsuklossa og laga pústið og jafnvel smur á eftir að athuga hvort sé kominn tími á það held samt ekki. Kominn tími til er farin að skammast mín fyrir að keyra litla hávaðasegginn:)
Hef ekki mikið meira að tuða í þetta skiptið, ætla að fara að lesa unglingabókmenntir og skrá mig í skóla:)
Ofur-sjúlli kveður