28.4.2006 | 00:50
Vorið er komið
Í dag fékk ég fyrst þá tilfinningu að vorið væri í alvöru komið. Þetta var einn af þessum ekta vordögum, bjart, hlýtt og stíf sunnanátt. Núna er klukkan hálftólf um kvöld og það er enn 11 stiga hiti. Það grænkar allt mjög hratt þótt snjórinn sé enn mikill í fjöllunum. Ég fæ svo rosalega mikla þörf til að vera úti á þessum tíma. Ég sakna alltaf sauðburðar, lóunnar og öllu sem vorinu fylgir. Mér finnst annar af stóru göllunum við að búa í þéttbýli vera sá að maður missir þessi beinu tengsl við náttúruna. Hinn gallinn er mengunin, þeas loft-, hljóð- og ekki síst ljósmengun. Ég er ekki nógu duglegur við að fara út úr bænum til að upplifa vorið. Ég þyrfti eiginlega að komast í sveit á vorin. Hjálpa nokkrum kindum í burði og marka nokkur lömb á nóttunni. Sveitarómantíkin er nefnilega alveg einstök og það er ekkert sem jafnast á við hana.
Á þessum tíma árs verð ég óþreyjufullur og langar á fjöll og á veiðar. Ég fór í fyrradag og pantaði mér tvær nýjar byssur. Nú á ég bráðum heilt vopnabúr! Gömlu ítölsku tvíhleypuna, eina sjálfvirka haglabyssu og svo riffil. Eða eiginlega bara riffling (22 cal) Ég er að verða vitlaus af spennu, því hann Daníel lögga er búinn að vera veikur í nokkra daga og því fæ ég ekki innkaupaleyfið afgreitt. Svo er að koma helgi og á mánudag er frídagur og ég fæ því ekki leyfið fyrr en í fyrsta lagi á þriðjudag. Ég er eins og barn á jólum. Mér leið eins þegar ég pantaði flugustöngina mína. Ég ætla á næstu dögum að setja hana saman og fara að æfa mig fyrir sumarið.
Við pabbi stefnum á að fara á fjöll í ágúst. Ég hlakka mikið til, því ég hef ekki komist almennilega á fjöll með honum í 3 ár. Mér finnst alveg meiriháttar að fara með pabba á fjöll á gamla Patroljeppanum hans. Við pabbi erum nefnilega svolítið líkir, hægir og fámálir og okkur finnst gaman að vera út í náttúrunni. Margar af mínum bestu útiverum hafa verið með pabba. Þar má helst nefna gönguna á Herðubreið og ferð okkar um svæðið sem afmarkast af Öskju í vestri, Kárahnjúka (Óspillta) í austri og Mývatn í norðri.
Við Erna ætlum að vera dugleg við að ganga í sumar og er stefnan m.a. sett á Heljardalsheiði. Ég setti stefnuna á Glerárdalshringinn í júlí (24 tindar) en ég sé að dagskráin mín og úthaldið leyfir það ekki að þessu sinni. Vonandi kemst ég samt eitthvað í fjallgöngu með Pétri vini mínum og Mása mági mínum. Það er svipaða sögu að segja með marga vini mína, að ég vil helst geta komist á fjöll með þeim. Ég vil geta farið með Ernu í fjallaferð, pabba á hálendið, Ágúst í rjúpu í Dalina og í veiði á heiðar, Hjörleif á Skagaheiðina í veiði, Mása í allskyns veiðar og aðra útiveru og núna um daginn rakst ég á minn gamla góða vin Guðna í Nettó og við ræddum þann möguleika að fara eitthvað upp á við saman.
Kammerkórinn minn yndislegi, Hymnodía, ætlar að hittast í Mývatnssveitinni í maí ásamt mökum. Það verður rosalega gaman og ég hlakka mikið til. Í fyrsta lagi er frábært að umgangast þetta skemmtilega fólk. Við erum búin að eyða mörgum stundum saman á síðustu mánuðum og núna langar okkur til að launa okkar nánustu þolinmæðina með því að fara með þá um helgi til Ernu og Péturs í Reynihlíð. Við ætlum að gista þar í tvær nætur og njóta þess að vera á besta stað í heimi. Hvar er betra að vera á vori en í Mývó? Hvergi, held ég fram. Erna Þórarins er kórfélagi og hún og Pétur maður hennar reka Hótel Reynihlíð. Við hlökkum mikið til söngs, matar, baðs og samveru í Mývetnskri náttúru. Síðan verður maður jú að fygljast með Júróvísjón!
Í kvöld var besta Stúlknakórsæfing ársins. Æfingin gekk rosalega vel og stelpurnar sungu svo vel að ég fékk langvarandi og króníska gæsahúð. Í lok æfingar fórum við upp í kirkju og stelpurnar improviseruðu yfir gamalt finnskt þjóðlag. Það var svona upplifun sem maður fær afar sjaldan. Þær sungu svo yndislega hreint og fallega. VÁÁ!
Á morgun ætlum við Munkarnir að skella okkur í hvíldar- og menningarferð í höfuðborgina. Ég er vanur að fá heimþrá um leið og ég er kominn á Moldhaugahálsinn eða þegar ég kominn í flugstöðvarbygginguna á Akureyrarflugvelli, en það en nú sennilega aðallega vegna þess að ég er svo oft að flækjast einn. Yfirleitt líður mér ekkert sérlega vel í ys og þys borgarinnar, en það er sennilega vegna þess að ég er svo sveitó! Ég er landsbyggðarrotta og er stoltur af því. En samt fer svona landsbyggðar/þéttbýlisrígur rosalega í taugarnar á mér. Ég er á þeirri skoðun að fólk sé ekkert betra á einum stað en á öðrum. Maður getur vissulega gert grín að ákveðnum stöðum og viðhorfum íbúa þar, en málið er að það er alltaf hægt að gera grín af þeim stað sem maður er staddur á og býr á. Maður þar bara smá húmor og sjálfíroníu. Vissulega eru reygvígínar bissí júnó avað verra (með amerrískum framburði skilluru) kúl mar og helst að vera allir eins sko og vesla í sudján, allt leim sem er staðsett fyrir udan mosó og smáralind, o sbrengja barrí kellingar júnó, AKureyringar eru virkilega loKaðir og allt ömurlegt fyrir sunnan, finnst aKuryeri vera miðdePill heimsins, þeir éTa á BauTanum og drekka kók úr BauK með punnnKKTTerað á bílnum. (allt þetta sagt á sjö mínútum) og Húarar (Sér þjóðflokkur) (sorrý Húarar sem ég þekki og tengist) munu aldrei kunna að gefa stefnuljós, stoppa við gangbraut né kunna að leggja bíl, EN!!!!! Það er eitt sem ekki er einu sinni hægt að þrasa um. Veðrið er betra hér á Akureyri en fyrir sunnan Ég er mikið á ferðinni og reyni að líta mjög hlutlaus á málið. Veðrið er best hér á Brekkunni á Akureyri. Oft þega veðrið er yndilegt er skítaveður fyrir austan, stórhríð á Dalvík ófært á Ólafsfjörð, Þæfingur í Hörgárdalnum, rok í Þorpinu og á meðan ég skrifaði þessa setningu var rok og riging, rok og sól, rok og slydda og svo rok og rigning aftur á stófkeflavíkursvæðinu. Ég held ég hafi lent í flugvél u.þ.b. 50 sinnum sl. 6 ár í Keflavík og ég hef einu sinni lent þar í góðu veðri. Og að þessu sinni er ég virkilega ekki að ýkja. Veðrið er meira að segja verra þar en í Reykjavík, og jafnvel verra en á Akranesi!!! Ég fullyrði að núna lít ég algerlega hlutlaust á málin. Ég lenti í smá þrætu við veðurfræðing í fyrra. Hún sagði til að rökstyðja mál sitt (var að reyna að halda því fram að í raun væri þetta allt saman misskilningur að veðrið væri betra hér á Akureyri) að vissulega væru sólarstundir fleiri hér á Akureyri en í Reykjavík, Jú það blési alls ekki eins mikið hér og vissulega væri úrkoman mikið minni, EN, meðalhitinn væri ekkert meiri. Þarna jarðaði ég hana. Það er nefnilega staðreynd að meðalhitinn er jú mældur allan sólarhringinn og þegar heiðskýrt er á sumrin þá er kaldara á nóttunni. En það er miklu kaldara á veturna sagði hún, jú það er rétt, þar sem það er svo oft heiðskírt, logn og frost á meðan það er rok og slydda á strórkeflavíkursvæðinu!!!! Eins og ég hef svo oft tekið fram þá er ég bara að skrifa þetta algerlega hlutlaust og lít afar raunsætt á hlutina
Best að hætta þessu áður en ég móðga alla sem ég þekki, þvottavélin bíður mín full af hreinum en blautum þvotti
góða nótt,
Eyþór
Athugasemdir
Haha djööööö ertu leiðinlegur maður...ertu að vísa til mín varðandi Húara:) Kunna bara að klessa bíla...þú bloggaðir tvisvar í röð ...juminn áttu ekkert líf greyið mitt.....:)
Skonsan (IP-tala skráð) 28.4.2006 kl. 07:11
Jæja nú ætla ég að prófa ða setja inn athugasemd, tókst ekki síðast.....hehehehe kv Hildur Pildur
Hildur (IP-tala skráð) 28.4.2006 kl. 21:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.