Letidagur í dag:)

Hef ekki upplifað svona leti síðan tja það eru að verða tvö ár síðan held ég:) Katla fór á Bubbakot og ég er heima í veikindafríi og ákvað að gera EKKERT. Þó svo að ég sé heima lasin ein þá fer ég alltaf að gera eitthvað, setja í vél, taka niður jólaskrautið og svona það sem þarf að gera og allt í einu er Katla bara komin heim og enginn tími til að vera veikur. Ákvað núna að hafa þetta öðruvísi, það er allt í drasli (hef samt smá samviskubit yfir því) það þarf að þvo þvott (líka smá ssbit) og fleira, en ég ligg upp í rúmi með tölvuna, kaffibolla, súkkulaði, bók og hitapoka og ætla að vera hér allavega á meðan þetta fer ekki að valda mér leiðindum:) Eyrað er ögn að skána, svaf t.d. í alla nótt án þess að þurfa að liggja í einhverri furðulegri stellingu eða fara fram og fá mér verkjalyf. Á samt enn erfitt með að tyggja og opna munninn upp á gátt en núna hlýtur þetta að fara að koma, enda á fimmta degi sýklalyfja, samt finn ég að jafnvægið er eitthvað ekki eins og það á að sérCrying

Sá svo á mbl.is að inflúensan er byrjuð að stinga sér niður, skyldi ég ekki pottþétt eiga eftir að fá hana tja maður spyr sig, hlýt að vera búin með kvótann núna trúi ekki öðru. 

Búin að lesa mikið undanfarna daga, keypti mér eina bók fyrir jólin, fékk svo eina í jólagjöf, keypti mér svo aðra í fyrradag og búin með allar þessar, þannig að ég er komin í að lesa unglingabókmenntirnar, var t.d. að lesa eina sem heitir Senjorítur með sand í brók og ég get svarið það ég emjaði úr hlátri á köflum. Er svo að fara að lesa aðra sem ég man ekki hvað heitir.

Náði á ritara Andreu barnalæknis sem sagði að Andrea myndi hringja í mig á mánudag, en Katla hefur verið með töluvert blóð í hægðum undanfarið og grætur mikið á meðan hún gengur örna sinna. Komin með sár sýnist mér og ég get ekki lengur látið krílið kveljast svona, hefur átt vanda til að hafa blóð í hægðum síðan hún fæddist en það var alltaf skrifað á að slímhúðin væri svo viðkvæm afþví að hún var með bakflæði en núna er að verða komið ár síðan hún hætti á lyfjum vegna bakflæðis þannig að ekki ætti það að geta verið því um að kenna. Ældi svo frekar en ekki í fyrrakvöld þannig að hún var heima hjá mér í gærmorgun en var eiginlega ekkert lasin nema bara að það var svo sárt að kúka. Greyið litla vona að Andrea hafi einhver ráð með að kíkja á hana. Finnst svolítið erfitt að ná á barnalækni hér, nema maður fari og bíði í marga klst uppi á slysadeild. 

Rakel stjúpdúllan mín er farin, skrýtið að hafa hana ekki hérna, er orðin svo ótrúlega breytt bara frá því í sumar. En hún ætlar að koma í sumar og vinna hérna á klakanum, verðum bara að finna einhverja vinnu fyrir hana og krossa putta að það hafist.  

Brynja var í viðtali hjá kennara í gær og fékk einkunnirnar sínar og þessi elska var með hæstu meðaleinkunn í bekknum eða 9,1 og hátt yfir meðaltali bekkjarins með allar sínar einkunnir. Sverrir umsjónarkennarinn hennar var mjög ánægður með hana og sagði henni að henni stæðu allar dyr opnar alveg sama hvaða svið hún myndi velja sér. Hún var eðlilega mjög glöð með þetta og sá að hún þyrfti ekki að fá nema 2,5 í stærðfræði eftir áramót til að vera save inn í MA haha....en mér heyrist hún nokkuð ákveðin að fara þangað..Hugsa að hún fari á félagsfræðibraut eða náttúrufræðibraut kemur í ljós. En svo kannski ákveður hún á lokasprettinum að fara í VMA og það er hið besta mál líka, báðir góðir skólar með öflugu félagslífi sem er líka mikilvægt að geta tekið þátt í:)

Polo fer á verkstæði í dag, skipta um bremsuklossa og laga pústið og jafnvel smur á eftir að athuga hvort sé kominn tími á það held samt ekki. Kominn tími til er farin að skammast mín fyrir að keyra litla hávaðasegginn:)

Hef ekki mikið meira að tuða í þetta skiptið, ætla að fara að lesa unglingabókmenntir og skrá mig í skóla:)

Ofur-sjúlli kveður 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband