23.4.2006 | 20:15
Fnykur
Þegar ég vaknaði í morgun fann ég að fnykur mikill var í svefnherberginu okkar. Ég var nú frekar utan við mig í morgunsárið, sennilega vegna þess að ég kíkti á Lúlla vin minn í gærkvöldi og fékk mér nokkra bjóra hjá honum, ég gerði þess vegna ráð fyrir að fnykur þessi ætti uppruna sinn að rekja til mín. Það kemur nefnilega fyrir að ólykt fylgi bjórdrykkju, sérstaklega ef Guinness hefur verið þjóraður. Þess vegna var ég hissa þegar ég dragúldinn labbaði inn á baðherbergið og komst að því að fnykur þessi var jafnvel verri þar. Ekki gat verið að vindgangur undirritaðs hefði verið svo kraftmikill að hann bærist á milli herbergja, í gegn um lokaðar dyr? Síðan kom í ljós að lykt þessi fannst um alla íbúðina, en mest þó þar sem gluggar voru opnir. Heilasellurnar mínar voru ekki í túrbógírnum í dag og ég var að átta mig á því núna síðdegis að brennisteinslykt þessi er auðvitað tilkomin vegna Skaftárhlaups. Lyktin hefur sem sagt borist með sunnanáttinni hingað, en ekki komið úr mínum rassi.
Brynja var svo kraftmikil í morgun að hún náði að draga okkur með út að hlaupa. Úthaldið á stelpunni er endalaust en ekki er hægt að segja það sama um okkur gamla fólkið. Ég var reyndar nokkuð ánægður með mig, en fór nú samt heim eftir c.a. 2 km vegna hælsæra. Brynja náði að draga mömmu sína upp Dalsbrautina á móti vindi og þær fór því tæpa 4 km. Núna ætla ég að taka mig á. Strengi þess heit að hlaupa a.m.k. helmingi oftar en ég hef gert undanfarið. Ég þarf s.s. að hlaupa tvisvar fram að jólum til að ná því takmarki.
Helga systir var fyrir norðan um helgina og hún kom í heimsókn til okkar í dag. Það var gott að sjá hana, maður er orðinn svo vanur að hitta hana nánast daglega áður en hún fór suður, þannig að ég var farinn að sakna hennar pínulítið.
Erna og Brynja fóru í pönnsukaffi til Hildar og Guðmundar en ég æfði mig á meðan. Er í fínu formi í æfingunum þessa dagana. Það er svo gaman að æfa þegar vel gengur. Ég er reyndar að æfa mjög stór og erfið verk, en það er bara enn skemmtilegra. Ég er með fullt af tónleikum á næstu mánuðum og eins gott að fara að koma sér upp efni. Ég er nefnilega að spila á mjög ólík hljóðfæri og get lítið spilað sömu verkin á mismunandi hljóðfæri. Ég er með tónleika á Sumartónleikaröðinni í Akureyrarkirkju í júlí og 4 dögum síðar er ég að spila á barokkorgelið í Hietaniemi á landamærum Svíþjóðar og Finnlands. Það er hluti af orgelhátíð sem haldin er á þeim slóðum. Ég er svo með tvenna tónleika í Hallgrímskirkju í ágúst, en þar spila ég ekkert verk tvisvar. Ég spila svo í Piteå um miðjan september. Ég er reyndar að velta fyrir mér að reyna að fá tónleikana flutta til Gammelstad sem er stutt frá Piteå. Þar er frábært orgel sem ég hef aldrei spilað á á tónleikum. Ég er svo að hugsa um að sækja um tónleika í Reykholti í sumar, og fá í stað þess afnot af íbúð sem þar er. Þá getum við farið öll þangað og slappað af í nokkra daga. Síðan á ég inni nokkur tónleikaboð hér og þar um landið sem ég ætla að fara að huga að. Annars vil ég geta eytt tíma heima hjá mér í sumar, og svo ætla ég að reyna að komast eitthvað í veiði og líka á fjöll með pabba. Það mætti alveg bæta nokkrum vikum við sumarið mín vegna
Blómin í garðinum eru farin að taka við sér, graslaukurinn löngu kominn upp og rabarbarinn farinn að kíkja upp úr moldinni. Ég er svo bjartsýnn að halda að ég geti farið að taka bílinn af vetrardekkjunum. Ætla að velta því fyrir mér fram að helgi. Ég nenni ekki að keyra suður um næstu helgi á negldu ef það er autt alla leiðina.
meira síðar,
Eyþór
Athugasemdir
ertu viss um að þetta hafi bara ekki verið af ykkur ;) hehe nei bara grín.. en þetta telst nokkuð gott að finna þessa lykt alla leið til Akureyrar.. ekki höfum við orðið vör við þetta hérna á höfuðborgarsvæðinu.. en það myndi hvort sem er ekki finnast vegna mengunar.. hehe sjáumst síðar ;) kær kveðja til ykkar allra frá mér
Helga Björg
Helga Björg Garðarsdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2006 kl. 16:28
Sakna ykkar líka. :)
Helga (IP-tala skráð) 24.4.2006 kl. 17:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.