25.11.2006 | 23:29
Röfl um eitt og annað
Mig langar rosalega til að röfla. En þar sem ég er svo ótrúlega jákvæður verð ég að bæta einhverju uppbyggilegu við.
Törnin er hafin. Aðventan er ekki einhver undirbúningstími hjá organistum. Hún er brjálæðistími. En þar sem flestir organistar virðast hafa það sem aðalhobbý að kvarta yfir hvað þeir hafi mikið að gera ætla ég ekki að segja neitt meir um það. Eftir helgina rosalegu fór þessi vika í bölvaða leiðinda skrifborðsvinnu. Tókst reyndar að gera jólahreingerninguna í leiðinni. Sóknarnefndin keypti handa mér nýja og öfluga fartölvu, sem auðveldar mér öll verk mikið, og þar sem hún tekur svo lítið pláss náði ég að henda tölvuborðinu út af skrifstofunni og hinn magnaði Sveinn, alltmúlígtmann í kirkjunni keypti þetta líka fína sófaborð fyrir mig. Nú vantar bara bar á skrifstofuna. Um síðustu helgi var ég semsagt talsvert upptekinn. Eftir langan vinnudag á fimmtudag, jarðarför, bænastund, stúlknakórsæfingu og svo laaaanga Hymnodiuæfingu fékk ég mér gott Whiskey í glas og ég er viss um að án þess hefði ég ekkert sofið þá nótt, því kollurinn á mér fer yfirleitt í allskonar helvítis hugarleikfimi á kvöldin þegar ég hef mikið að gera. Föstudagurinn fór í allskyns undirbúning fyrir amfælismessu kirkjunnar sem var á sunnudeginum. Var að því frá 8-16 en þá tók við kóræfing hjá Kór Tónlistarskólans, en ég er að leysa af núna fram að jólum sem kórstjóri þar. Æfingin var frá 16-18 en þá kom Hymnodia til að undirbúa tónleika. Sándtékkið var til klukkan 19.30. Ég reifst og skammaðist í hljóðmönnunum enda fannst mér hljóðið í kórnum ömurlegt. Held ég hafi náð að móðga gaurana aðeins þegar ég sagði þeim að það væri ekkert vit í þessu nema þeir hefðu nótur af öllu saman hjá sér. Sá á viðbrögðum þeirra að nótur hefðu bara verið sem latína fyrir þeim. Komst samt að því að standardinn er ansi hreint misjafn í þessum bransa. Ég hef kynnst frábærum hljóðmönnum sem tekst vel að vinna með kórum og strengjum, og þessir strákar eru fínir í rokkinu, en þarna stóðu þeir sig ekki vel. Ég skaust heim, hentist í jakkaföt og kom við í sjoppu og keypti mér samloku. kl 20 voru fyrri tónleikar kvöldsins, með Óskari P. Gunna Þórðar og kompaníi. Tónleikarnir voru afskaplega langir, klukkutími og 45 mínútur. Við stóðum á öskrinu allan tímann til að eitthvað heyrðist í okkur. Fengum korterspásu og þá byrjuðu seinni tónleikarnir. Þeir voru lengri! Við vorum gjörsamlega búin eftir þá tónleika. Ég skreið síðan heim um kl. hálf eitt. Morguninn eftir var ég með kóræfingu frá kl. 9-15 og mætti þá hymnodia. Þriðju tónleikarnir með Óskari byrjuðu kl. 16 og voru svipað langir og hinir. ÞEtta var reyndar mjög gaman allt saman en gífurlega erfitt vegna álags á raddir. Ég fór svo heim eftir tónleika og var hún Erna mín búin að elda uppáhalds matinn minn, pönnusteikta hnísu. Þar sem lítill tími hafði gefist til undirbúnings fyrir hátíðarmessu ákvað ég að mæta snemma á sunnudagsmorgni í kirkjuna. Þar æfði ég mig vel, kláraði messuskrágerð (sem var reyndar full af vitleysum) og tók til kóraefnið. Ég náði rétt að hendast heim í hádeginu til að gleypa í mig cheerios og skipta um föt. Bæði Stúlknakórinn og kirkjukórinn sungu við messuna og var hún mjög flókin og löng. En mér fannst samt mjög gaman og ég endaði með því að reka alla út úr kirkjunni, því ég spilaði Messiaen sem eftirspil Eftir messu fór ég beint í Tónlistarskólann og var með kóræfingu til kl. 18. Hildur og Guðmundur buðu okkur svo í mat og vegna þreytu fór rauðvínið og eðalkoníakið sem Guðmundur bauð mér upp á ekkert sérlega vel í mig, svona eftir á, því ég varð hálf slappur í maganum og steinsofnaði upp úr kl. 22.
Svona var semsagt þessi helgi, og mér sýnist þær eiga eftir að vera svona fleiri á næstunni. ÞEssi er samt róleg, bara ein æfing í dag, tónleikar kl 16 á morgun og svo ein uppákoma með Stúlknakórnum um kvöldið.
Við fórum til Unu og Óskars í kvöld og það var alveg meiriháttar. Þau eru eðalgestgjafar og við sem ætluðum svona aðeins að droppa inn stoppuðum í 5 tíma þar! Ég heyrði svo í mínum gamla góða vina, Gugga, þegar ég kom heim. Ég hef því miður lítið haft samband við hann undanfarin ár en nú ætla ég að fara að kíkja í heimsókn til hans.
Ég nenni eiginlega ekki að byrja að tuða núna. Ætlaði að röfla um pólítík, sjónvarp, spillingu og ætlaði sko ekki að spara stóru orðin, en núna er ég orðinn svo meyr. Sennilega er það hitanum af kamínunni að kenna.
röflið kemur síðar,
Eyþór
Athugasemdir
[Aðventan er ekki einhver undirbúningstími hjá organistum. Hún er brjálæðistími. ... Eftir helgina rosalegu fór þessi vika í bölvaða leiðinda skrifborðsvinnu. ... . Sóknarnefndin keypti handa mér nýja og öfluga fartölvu, sem auðveldar mér öll verk mikið, og þar sem hún tekur svo lítið pláss náði ég að henda tölvuborðinu út af skrifstofunni og hinn magnaði Sveinn, alltmúlígtmann í kirkjunni keypti þetta líka fína sófaborð fyrir mig. Nú vantar bara bar á skrifstofuna. Um síðustu helgi var ég semsagt talsvert upptekinn. Eftir langan vinnudag á fimmtudag, jarðarför, bænastund, stúlknakórsæfingu og svo laaaanga Hymnodiuæfingu fékk ég mér gott Whiskey í glas og ég er viss um að án þess hefði ég ekkert sofið þá nótt, því kollurinn á mér fer yfirleitt í allskonar helvítis hugarleikfimi á kvöldin þegar ég hef mikið að gera.]
Þú ættir að skammast þín.
Pálmi (IP-tala skráð) 26.11.2006 kl. 00:04
Sammála þessum Pálma þú ættir að skammast þín en fyrir hvað veit ég ekki kannski fyrir að vinna svona mikið hahahha
Bumban (IP-tala skráð) 27.11.2006 kl. 19:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.