Nýr á blogginu

Kæru félagar, nú þykist ég ætla að halda það út að vera með bloggsíðu.  Hef reynt einu sinni áður, skrifaði eina færslu á þá síðu.  Ég ákvað að vera heima hjá mér fram að hádegi til tilbreytingar.  Það hefur verið brjálað að gera undanfarið og ég ekki sést mikið á heimilinu.  Framundan eru páskarnir með allri vinnunni sem þeim tengist.  Ég fer nú að hundskast á lappir og koma mér í vinnuna.  Í kvöld er ég að spila í messu kl. 20.30.  Morgundagurinn, föstudagurinn langi, er langur hjá mér, ég spila á klukkutíma fresti við lestur passíusálmanna.  Þess á milli verð ég að æfa með söngvurum og reyna að koma lagi á skrifstofu mína sem er í rúst eftir stress undanfarinna vikna.  Annað kvöld er svo kyrrðarstund við krossinn, og þar spila ég með öllum kirkjukórnum og Kristjönu Arngríms.  Hugmyndin er svo að reyna að komast austur á Húsavík á laugardag.  Ég er farinn að þrá að komast úr bænum og það verður fínt að komast til tengdafjölskyldunnar í einn dag.  Ég er með mikið samviskubit yfir að hafa ekki komist í heimsókn til fjölskyldna minna undanfarið. 

Sunnudagurinn verður svo eins og páskadagur hjá organistum og prestum er.  Langur en hátíðlegur.  Ætli ég fari ekki á lappir um 5 um morguninn, undirbúi messurnar og tek á móti kirkjukórnum kl. 07.30.  Björg Þórhalls er líka að syngja um morguninn.  Messan er kl 8 og strax eftir messu tek ég á móti Stúlknakórnum og læt þær syngja við Páskahláturinn, skemmtun í safnaðarheimilinu. Barnakórinn kemur eftir það og ég æfi síðan báða kórana fyrir fjölskyldumessuna kl. 11. 

Vonandi verð ég duglegur við að blogga í þetta skiptið.  Miðað við stressið undanfarið er þetta kannski eina leiðin fyrir fólkið mitt til að frétta af mér.  Ég hef nefnilega ekki getað hringt mikið í vini og kunningja og hvað þá farið í heimsóknir.

Eyþór


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Haha! fyrst í athugasemdunum. Enda tveimur tímum á undan íslendingum. Gangi þér vel um páskana og hvað er vínsteinslyftiduft? kv. Sigrún Þórsteins

orgelstelpa (IP-tala skráð) 13.4.2006 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband