29.10.2006 | 14:01
Sjónvarpsgláp og starfsheiti
Ég er sjónvarpsfíkill
Undanfarna daga hef ég algerlegta sökkt mér í sjónvarpsgláp. Búinn að vera lasinn og ég fann mér því miður ekkert uppbyggilegra að gera en að glápa á sjónvarpið. Hef horft mikið á Discovery rásirnar allar saman, BBC Prime, Norrænu stöðvarnar og íþróttir. Það er auðvelt að festast yfir þessu enda oft gott efni í sjónvarpinu, sérstaklega á discovery stöðunum. Núna, þegar ég er orðinn nokkuð hress af pestinni, langar mig ógurlega til að halda áfram að glápa á sjónvarpið. En ég ætla að gera eitthvað uppbyggilegra í staðinn. Byrjaði strax í morgun þegar ég sat á klósettinu með kaffibollann. Fór þá að spila tölvuleik í símanum (þegar ég var búinn að spjalla við Óskar P í símanum). Núna er ég fyrir framan tölvuna og blogga og á eftir ætla ég kannski að setjast niður með fartölvuna og halda áfram að semja kennsluefni í orgelfræðum. Er þetta ekki framför frá sjónvarpsglápinu??
En í öllu sjónvarpsglápinu fór ég að hugsa um öll þau starfsheiti sem til eru. Ég horfði á hinn ágæta spurningaþátt "the weakest link" á BBC og ég áttaði mig á því að ég skildi ekki nema brot af öllum þessu fínu starfsheitum sem fólkið hafði. Þetta er komið hingað til lands, þ.e. að búa til fín nöfn yfir allt. Einhver þátttakandi í íslenskum þætti var dælitæknir. Ég efast stórlega um að íslenskufræðingar geti samþykkt þetta starfsheiti. Sjarmör þessi vann við að dæla skít úr skólplögnum. Sem sagt dælitæknir. Ekki dælumaður, dælustjóri, skítsuga, heldur dælitæknir. Ég er alls ekki að gera lítið úr starfi mannsins heldur starfsheitinu. Sum starfsheiti eru lögvernduð og er það gott. Ég er feginn að ég get ekki skráð mig á skyndihjálparnámskeið og kallað mig lækni eða hjúkrunarfræðing á eftir. Ég þekkti einu sinni par sem voru skráð í símaskrá málari og leikskólakennari. Hvorugt þeirra hafði neitt lært í þeim fögum sem þau þóttust vinna við. Hann var vissulega handlangari hjá málara og hún vann á leikskóla, en þau gátu samt skráð sig með þessi lögvernduðu starfsheiti í símaskrána. Ég er organisti. Er stoltur af því og ég er í raun nokkuð ánægður með að allir þeir sem sinna því starfi innan kirkjunnar séu kallaðir sama nafni, óháð menntun. Ég hef 7 ára háskólanám í þeirri grein á meðan aðrir hafa kannski ekkert nám en mikla hæfileika í tónlist. Mér dettur ekki í hug að fara fram á að þeir hafi einhvern annan titil en ég. Öðru máli gegnir um starf Ernu minnar, hún er sjúkraliði og það þýðir að hún hefur ákveðna menntun að baki til að sinna fólki og vinna inni á heilbrigðisstofnunum. Þótt sumar heilbrigðisstofnanir ráði ófaglærða og láti þá ganga í lögvernduð störf sjúkraliða, þá vil ég geta treyst því að faglært fólk sinni mér þegar ég ligg inni á sjúkrahúsi. A.m.k í hjúkrunarstörfunum. Því miður er það nokkuð algengt að fólk sem aldrei hefur unnið við umönnun er að sinna sjúklingum með afar alvarlega og erfiða sjúkdóma hér í bænum. Sjúkdóma sem krefjast þekkingar á, til að geta sinnt sjúklingum. Aðstandendur hafa ekkert um málið að segja, jafnvel þótt slæm mistök í meðhöndlun hafi átt sér stað. Ég ætla ekki að hætta mér meira út í þessa sálma.
Eyþór
Athugasemdir
Kaffibolla á klósettinu??? athyglisvert....
Margrét, Fanney og Patrekur, 29.10.2006 kl. 16:01
Jamm ég vil amk. ekki vera skorinn upp af einhverjum símaskrárlækni sem hefur kannski bara tekið grunnnámskeið í syndihjálp hjá rauða krossinum.
Hjörl
hjorl (IP-tala skráð) 1.11.2006 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.