29.8.2006 | 23:17
Jæja
Ágúst var mánuður breytinga á íbúðinni okkar. Eftir tónleikaferð til Reykjavíkur og dásamlega vel heppnaða hálendisferð (hjá Eyþóri og Nonna) ákvað kallinn að taka hæðina í gegn. Stofurnar, gangurinn og elhúsið var málað og gluggarnir lakkaðir. Borðstofusettið seldum við og fengum við það pláss sem við höfum ekki séð lengi. Við vorum eiginlega að kafna í húsgögnum áður. Við léttum einnig mikið á íbúðinni með því að minnka drasl á veggjum og gólfi. Við skiptum einnig um ljós og gardínur og núna erum við orðin mjög ánægð með hæðina.
Tónleikarnir í Hallgrímskirkju gengu ágætlega. Ákveðin þreyta gerði vart við sig á seinni tónleikunum en eftir vel heppnaða hvíld á fjöllum með pabba er orkan komin til baka. Við feðgarnir áttum alveg hreint frábæra daga. Við fórum frá Akureyri í Mývatnssveit og þaðan keyrðum við frá Grænavatni í Suðurárbotna og þaðan í Dyngjufell, þar sem við gistum. Veðrið var frábært alla dagana. Næsta morgun fórum við lengra í suður, í gegn um Dyngjufjalladal og inn á Gæsavatnaveginn og fórum svo í Dreka með nokkrum stoppum þó. Þaðan keyrðum við í Kverkfjöll og gengum á jökulinn. Útsýnið var frábært og það var gaman að klöngrast um skriðjökulinn. Við gistum við rætur Dyngjufjalla að austanverðu um nóttina. Næsta dag ókum við síðan yfir flæðurnar undan Dyngjujökli, yfir Urðarfell (réttnefni) og fórum í Kistufell. Eftir gæðastund á kamrinum þar héldum við enn lengra í vestu, í Gæsavötn og svo þaðan niður í Eyjafjörð. Þótt við keyrðum mikið náðum við samt að skoða margt. Ég fann t.d. gil í Eyjafjarðardrögum með ótrúlegum kynjamyndum í klettum.
Brynja er byrjuð í skólanum sínum og Rakel einnig í sínum skóla í Svíþjóð. Við vorum alls ekki ánægð með umsjónarkennara Brynju til að byrja með. Við Erna erum mjög andvíg skoðunum Snorra í Betel en eftir foreldraviðtalið ákváðum við að hann yrði að fá að eiga sínar skoðanir í friði. Það er alls ekki þar með sagt að hann sé að troða þeim inn á krakkana. Hann er einnig eflaust góður kennari. En ég sætti mig aldrei við að hann boði sína öfgafullu trú í bekknum. Ég er á þeirri skoðun að einn kunningi minn sem nú er látinn gæti verið enn á lífi ef hann hefði ekki verið svo óheppinn að vera samkynhneigður Hvítasunnumaður. Ekki óheppinn að vera samkynhneigður, heldur þetta tvennt saman. Og ekki orð um það meir. Ég einlægur stuðningsmaður þess að samkynhneigð pör sem eru ástfangin og búa saman fái öll réttindi á við gagnkynhneigða, þ.m.t. rétt til að giftast í kirkju og ættleiða börn. Við höfum lokað augunum allt of lengi fyrir mannréttindabrotum sem samkynhneigðir eru beittir. Ásamt gömlu fólki.
Hymnodia tók upp raddir við 13 lög Gunnars Þórðarsonar um síðustu helgi. Óskar Pétursson er að fara að gefa út plötu með lögum kappans. Kórinn syngur með í flestum laganna. Það er margt spennandi framundan hjá kórunum mínum og núna í haust tek ég við kirkjukórnum líka. Það lítur út fyrir að vera mikið að gera í vetur en jafnframt afar skemmtilegt.
Erna vinnur eins og vitleysingur þessa dagana. Hún fær reyndar frí í einn dag núna á fimmtudag. Hún fer stækkandi þessa dagana og heldur því áfram næsta hálfa árið........ Mikil gleði í Munkanum
kveðja úr Munkaþverárstræti 1 (Mér finnst þetta svo flott götunafn, nota það sem oftast!)
Eyþór
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Bloggið ykkar lífgar aldeilis upp á lífið hér í útlegðinni. Til hamingju með aukinn líkamsvöxt, ég vona að ég hafi skilið þetta rétt!
orgelstelpa (IP-tala skráð) 30.8.2006 kl. 21:10
Innilega til hamingju, baedi tvo - eg var ekki buin ad fretta af tessu! Oh, en frabaerar frettir!
En vardandi Snorra ... hann var umsjonarkennari yngri brodur mins fyrir nokkrum arum, og eg veit ekki hvort hann se buinn ad breytast sidan, en brodir minn kom heim ur skolanum einn daginn med hugmynd sem hann gat ekki sofid fyrir tha nott, nefnilega ad heimsendir vaeri ad koma innan nokkurra ara. Mamma stormadi a fund Snorra naesta dag, thar sem Snorri jatadi ad hafa sagt thetta fyrir framan krakkana, en neitadi ad segja brodur minum ad thetta vaeri kannski ekkert endilega satt - hann stod fastur a sinni heimsendaskodun. En vonandi er hann haettur ad utvarpa skodunum sinum i skolanum eftir thetta.
Hafidi thad sem allra best, og til hamingju aftur!
-Thora Ingvarsd.
Thora kormaddama (IP-tala skráð) 5.9.2006 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.