Vonbrigði

Ég held mér hafi liðið eins og barni á aðfangadagskvöld í dag. Tveir tímar þar til opna átti pakkann, pakkinn minn var reyndar saltað hrossakjöt. Ég fór í Nettó í dag og rak augun í hrossakjötið og ég bara varð að fá mér. En bíðið nú við, það voru fleiri tegundir en Kjarnafæðishrossakjötið sem maður hefur oftast keypt. Það voru svo yndislega fallegar sneiðar frá SS í borðinu. Þær voru miklu fallegri að sjá en kjötið frá Kjarnafæði. Svo mátulega feitar og þykkar. Þetta hlaut bara að vera enn betra en annars góða kjötið frá Kjarnafæði. Svo var það líka dýrara. Ekki skemmdi það fyrir að kaupa dýrt og fallegt hrossakjöt. Ég stökk af stað með dýrindis kjötið og flýtti mér svo mikið að ég rauk af stað á bílnum með Ernu í aftursætinu, haldandi á Kötlu litlu. Ernu tókst að róa mig í nokkrar sekúndur svo hún gæti fest barnið í stólinn. Þegar heim var komið flýtti ég mér í eldhúsið og skellti kjötinu í pott. Hófst þá þrautarbiðin. Á 5 mínútna fresti fór ég og athugaði hvort ekki væri allt í lagi með kjötið. Þefaði úr pottinum. Tíminn stóð kyrr. Spennan varð óbærileg og til að drepa tímann sauð ég kartöflur og rófur og var dýrindis kartöflumús gerð. Svo rann stundin upp. Kjötið var fært á diska og loksins gat ég skorið bita af kjötinu dýrlega og borðað yfir mig, enda keypti ég vel á annað kíló. En hnífurinn virtist eitthvað bitlaus, illa gekk að skera kjötið. Helvítis IKEA drasl hugsaði ég. Bitinn fyrsti fór í munninn og þá rann það upp fyrir mér að kjötið var ólseigt. Og ekki nóg með það, það var vont. Ef ég segi að matur sé vondur, þá er hann sko vondur. Þvílík vonbrigði! Þetta var eins og ef mjúki pakkinn var dulbúinn með því að setja hann í skókassa þegar maður var krakki. Fölsuð vara. Ömurlegt! Ég var búinn að hlakka svo til að borða saltað hrossakjöt sem var dýrarar en það venjulega. Núna held ég að SS salti asnakjöt eða flóðhestakjöt. Aldrei skal ég kaupa SS vörur aftur. Ég ætla ekki einu sinni að keyra í gegn um Selfoss aftur. Eða hvar í andskotanum sem SS saltpækilstunnurnar eru. Ég veit ekki einu sinni hvort ég treysti mér í að elda saltað hrossakjöt í framtíðinni, vonbrigðin voru svo hræðileg, ég veit ekki hvort ég get afborið svona brostnar vonir aftur. Fer bara næst í Olís og fæ mér eina með öllu.....

....En bíddu nú við, eru þessar dásamlegu pylsur þeirra í Olís á Tryggvabraut ekki frá SS?.........

Eyþór


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geturðu ekki bara keypt tryppi og saltað það sjálfur í kjallaranum?

orgelstelpa (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 18:19

2 Smámynd: Móðir, kona, sporðdreki:)

Góð hugmynd!  Kannski ég smíði reykhús þar líka.  Reykt hrossakjet er nefnilega enn betra en saltað. *slurp*

Súperman

Móðir, kona, sporðdreki:), 12.4.2007 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband