17.5.2006 | 22:16
Helgin í snjó?
Eftir að hafa búið í Svíþjóð í 4 ár fór mér að finnast veðrið skemmtilegra á Íslandi. Amk hér á Akureyri. Tilbreytingaleysið í Svíþjóð var farið að fara í taugarnar á mér. veðrið var t.d. eins vikum saman, í desember til mars var logn, 20-30 stiga frost og sól 6 daga af 7. Aldrei skafrenningur, aldrei neinn kraftur í veðráttunni. En ég verð að viðurkenna að núna vil ég bara fá sumarið. Vorið kom yfirleitt mjög skyndilega í Svíþjóð og það var bara allt í einu hlýtt og þannig hélst það. Mér sýnist að ég þurfi að taka með mér lopapeysuna og snjógallann fyrir Mývatnshelgina, því veðurspáin er köld. Við erum s.s. að fara á Hótel Reynihlíð um helgina ásamt Hymnodiu og mökum. Brynja ætlar í "pössun" til Rakelar vinkonu sinnar hér á Akureyri. Við erum sennilega 18 sem förum í heimsókn til Ernu Þórarins og Péturs í Reynihlíð um helgina. Það verður gaman að kynnast mökum þessa góða fólks sem maður hefur umgengst svo mikið í vetur. Þetta er fyrst og fremst hugsað sem afslöppunar- og skemmtiferð. Góð veislumáltíð á laugardagskvöld, Júróvísíon, Jarðböðin og gönguferðir um þessa náttúruparadís. Ekki leiðinlegt að vera þar núna þegar náttúran er öll að lifna við.
Starf mitt mun taka miklum breytingum í haust. Ég veit í raun ekki alveg hvernig næsti vetur verður en það er ljóst að ég mun vera talsvert bundinn hér. Ég þarf að fara að semja við vinnuveitendur mína um fyrirkomulagið. Satt best að segja kvíði ég því svolítið, því mér hefur liðið afar vel í vinnunni en það er svo sem ekkert sem segir að hlutirnir munu versna. Starfið í Akureyrarkirkju er afar gefandi og skemmtilegt. Hápunkarnir eru kórarnir mínir, Stúlknakórinn og Hymnodía. Þeir eru pínulítið sem börnin mín. Einnig hef ég haft mikið frjálsræði til að fara og halda tónleika um allar trissur. Ef ég þyrfti að fórna einhverju af þessu yrði starf mitt um leið svo mikið leiðinlegra.
Ég fór í hádeginu á Amtsbókasafnið með Sr. Óskari. Það er hægt að kaupa sér snilldarsúpur þar í hádeginu. Frábærlega góð súpa með heimabökuðu brauði. Það var mjög gott að setjast niður með Óskari og spjalla. Hann er sérlega vandaður maður og við erum að mörgu leyti líkir.
Á morgun fara nemendur mínir í próf. Þetta er yfirleitt svolítið stressmoment fyrir mig. Ég reyni að leggja allan metnað í að nemendur mínir standi sig vel. Mér finnst mjög gefandi og gaman að kenna og þá sérstaklega þegar kennslan verður gagnvirk, þ.e. þegar umræður skapast um tónlistina og annað sem tengist náminu. Ég er pínulítið stressaður fyrir hönd nemenda minna, þrátt fyrir að ég viti að þau eru mjög vel undirbúin og munu standa sig vel í prófum. Ég er svo að dæma 3 kórstjórnarpróf á morgun. Það finnst mér spennandi.
Ég fór eitt kvöldið á afvikinn stað með byssurnar mínar og fékk mikla útrás með þær. Skaut einhverjum 25 skotum úr sjálvirku byssunni, svona rétt til að kynnast henni betur og svo skaut ég 50-60 skotum úr rifflinum. Náði að stilla kíkinn nokkuð vel. Var farinn að hitta innan 5 cm ramma á 50 metrum og innan 10 cm á 80-90 metrum. Það var svolítið breytilegur vindur sem hafði smá áhrif. Ég var ekki með tvífót á rifflinum eða sandpoka þannig að ég skaut bara haldandi á honum. Ég er bara ánægður með það og ég vona að ég geti eitthvað notað báðar byssurnar í haust. Ég er búinn að redda mér smá gæsaveiði og svo fer maður að sjálfsögðu á rjúpu. Mig langar mikið til að veiða Heiðagæs en ég hef aldrei veitt þær. Einnig hef ég lítið farið á andaveiðar. maður þarf helst að vera með góðan veiðihund á andaveiðum. Stöngunum mínum næ ég eitthvað að sveifla í sumar. Ég var að áðan heyra í mínum góða vini, Ágústi. Við ætlum að fara eina nótt núna í lok maí. Svo verður maður nú að komast í Ölvesvatn með Hjörleifi í sumar. Það er bara möst! Einnig langar mig mikið í veiði með pabba.
Við Erna byrjuðum í gær á að semja boðskort fyrir brúðkaupið. Úr því varð eitt alsherjar grín. Þetta gengur ekki alveg nógu vel hjá okkur. Við erum kannski full afslöppuð. Já eða kærulaus. Við erum ekkert farin að spá í matinn að ráði. Ætlum bara að hafa einhvern grodda, almennilegan grillmat og bjór. Það er meira okkar stíll en fín hlaðborð.
Jæja mín kæru, ég er farinn að sofa.
Eyþór
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.