9.5.2006 | 23:20
Kórgalinn
Jæja þá er maður kominn heim af einni kóræfingunni enn. Í kvöld var það kirkjukórinn. Þau sungu Mozart Requiem og sænska síðrómantík. Í gær hitti ég Hymnodiu, var eiginlega kominn með fráhvarfseinkenni því ég hafði ekki hitt þau í tvær vikur. Við sungum Arvo Pärt og Hildigunni Rúnars. Góð blanda. Það er margt spennandi framundan hjá okkur og við vöðum eiginlega í tilboðum um tónleika og annan söng.
Brynja fór til læknis í gær vegna bólgu og kvala í ristinni. Það er ekki komið á hreint hvað er að hrjá hana, líklegast er það eitthvað sem heitir álagsbrot eða þá sýking. Hvort tveggja er slæmt, sérstaklega núna þegar hún er sem öflugust á fótboltaæfingum. Enda er hún hundfúl yfir þessu. Þær stelpurnar í Þór eru nefnilega að fara í keppnisferð til Danmerkur í júlí.
Við Erna erum búin að vera dugleg við að hugsa um að fara að taka til í garðinum en það hefur lítið orðið úr verki hjá okkur. Á morgun..... segir sá lati. Við erum samt að spá í að fella eitt reynitréð, enda er það orðið frekar ljótt og tekur bara næringu frá öðrum gróðri. Með því reddum við eldivið í kamínuna fyrir næstu árin . Ætli maður verði ekki svo að fara að ná sér í skít í beðin.
Það hefur gengið illa hjá mér að komast í orgelið til að æfa mig. Mikið hefur verið að gerast í kirkjunni og ég hef verið upptekinn þegar orgelið hefur verið laust. Þetta er farið að pirra mig svolítið. Það fer að styttast í alla tónleikana og ég verð að fara að æfa mig meira. Svo er útvarpsmessa í beinni á sunnudag og ég verð að finna eitthvað gott til að spila þar.
Karrýið var skrambi gott, át yfir mig eins og venjulega. Annars hefur sykursýkin verið í mjög góðu lagi undanfarið. Þökk sé aukinni hreyfingu (skokkaði 5 km í dag) og bættu mataræði. Einnig sef ég aðeins meira núna en oft áður.
Jæja, beddinn bíður
Eyþór
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.