22.4.2007 | 09:16
Snjókorn falla
Gleðilegt sumar!
Þetta er rammíslensk og afar falleg kveðja. Fólk faðmast á förnum vegi og óskar hvert öðru gleðilegs sumars. Þessi siður er eflaust nokkuð gamall og ég er viss um að Sumardagurinn fyrsti er svo snemma vors, til að hann auki mönnum bjartsýni í lok vetrar, því eins og við vitum er sumarið ekki komið á sumardaginn fyrsta. Einnig táknar þetta tvískiptingu ársins í sumar og vetur, og er fyrsti vetrardagur c.a. hálfu ári á eftir sumardeginum fyrsta. (Sumardagurinn fyrsti er fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl og fyrsti vetrardagur fyrsta laugardag eftir 21. október) Ég vona að séríslensku frídagarnir fái meiri athygli hjá okkur í framtíðinni. Við ættum að taka norska til fyrirmyndar og halda almennilega upp á 17. júní. Það sama má segja um sumardaginn fyrsta. Við kunnum ekki orðið að skemmta okkur. Það er eins og það þurfi svið með fullt af hljómsveitum og atriðum úr ávaxtakörfunni til að við getum kallað það skemmtun. Ég vildi að það væri hægt að halda "non profit" skemmtun einhvers staðar á árbakka, keppa í ýmsum óvanalegum greinum, borða sameiginlegan mat, fara með gamanmál, syngja o.s.frv. Helst þyrfti þetta að gerast án skipulagsnefnda og framkvæmdastjórna. Enga styrktaraðila og það sem skiptir höfuðmáli, þetta þyrfti að gerast í dreifbýli þar sem verslunareigendur reyna ekki að hagnast á öllu saman. Þett væri nú sennilega ekki hægt á sumardaginn fyrsta, en svo sannarlega á Sumarsólstöðum (sem við ættum að halda upp á) og 17. júní. Það skín sennilega í gegn um skrifin hversu ég er á móti skipulagðri unglingadrykkjusamkomu Akureyrar um verslunarmannahelgi. Það er gjörsamlega óþolandi að nokkrir aðilar sem hagnast peningalega á þessarri vitleysu geti haldið bænum í gíslingu í 5 daga og lýst svo ánægju með allt saman þegar nauðganir eru kærðar og fíkniefnamál skipta mörgum tugum. Ekki þori ég að fara að heiman, einhver verður að verja húsið. Enda hef ég þurft þess. Tvisvar verið stolið af okkur og í fyrra þurfti ég að reka lið úr garðinum hjá mér. Unglingadrykkjan þessa helgi er hrikaleg. Læknar á vakt þurfa að vera með lögregluvakt til að geta sinnt stöfum sínum. Lögreglan vinnur eins og skepnur. Ég fór um síðustu verslunarmannahelgi á lögreglustöðina og hrósaði lögreglumönnunum fyrir þeirra frábæru störf. Maðurinn sem var á vakt, rauðeygður og ósofinn, varð nánast hrærður, þakkaði mér kærlega fyrir og sagði að þeir fengju svo sem ekki oft hrós fyrir störf sín. Enn einu sinni ráða peningasjónarmiðin í þjóðfélaginu. Ekki er þetta fjölskylduvænt og ekki get ég samþykkt að mikil menning fari hér fram um verslunarmannahelgina.
Talandi um menningu. Ég fór á gífurlega áhugaverðan fyrirlestur á föstudag. Dr. Ágúst Einarsson fjallaði um menningarfræði sem skapandi atvinnugrein. Í máli hans kom fram að menningin á Íslandi skilar þrefalt meiri tekjum í þjóðarbúið en málmbræðslurnar. 6% af á móti 2%. Landbúnaðurinn skilar 1.4%. Og svo erum við ekki einu sinni með menningarmálaráðherra. Stuðningur hins opinbera við menningarstarfsemi er afar snautlegur. Atvinnutónlistarmenn landsins skila næstum jafn miklu til þjóðarbúsins og landbúnaðurinn í heild sinni.
Ágúst nefndi í sínum fyrirlestri að finnar hefðu skilið mátt menntunar og menningar og ákveðið að styrkja menntakerfið og dæla penginum í menntun og menningu þegar rússneski markaðurinn, sem finnskt atvinnulíf byggði mikið á, hrundi. Það er heldur betur að skila sér.
Í dag er 2. sunnudagur eftir páska og nefnist hann misericordia domini Það styttist í hvítasunnuna og þar með fermingu heimasætunnar. Eftir það fer ég til Svíaríkis og ætla mér að útskrifast í júní eftir 7 ára háskólanám. Það er óneitanlega talsverður áfangi en ég á nú samt örugglega eftir að finna mér eitthvað að læra áfram. Svolítið erfitt að hætta allt í einu í skóla, búinn að vera í skóla í 26 ár með stuttum hléum.
Gleðilegt sumar aftur
Eyþór
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)