9.5.2006 | 23:20
Kórgalinn
Jæja þá er maður kominn heim af einni kóræfingunni enn. Í kvöld var það kirkjukórinn. Þau sungu Mozart Requiem og sænska síðrómantík. Í gær hitti ég Hymnodiu, var eiginlega kominn með fráhvarfseinkenni því ég hafði ekki hitt þau í tvær vikur. Við sungum Arvo Pärt og Hildigunni Rúnars. Góð blanda. Það er margt spennandi framundan hjá okkur og við vöðum eiginlega í tilboðum um tónleika og annan söng.
Brynja fór til læknis í gær vegna bólgu og kvala í ristinni. Það er ekki komið á hreint hvað er að hrjá hana, líklegast er það eitthvað sem heitir álagsbrot eða þá sýking. Hvort tveggja er slæmt, sérstaklega núna þegar hún er sem öflugust á fótboltaæfingum. Enda er hún hundfúl yfir þessu. Þær stelpurnar í Þór eru nefnilega að fara í keppnisferð til Danmerkur í júlí.
Við Erna erum búin að vera dugleg við að hugsa um að fara að taka til í garðinum en það hefur lítið orðið úr verki hjá okkur. Á morgun..... segir sá lati. Við erum samt að spá í að fella eitt reynitréð, enda er það orðið frekar ljótt og tekur bara næringu frá öðrum gróðri. Með því reddum við eldivið í kamínuna fyrir næstu árin . Ætli maður verði ekki svo að fara að ná sér í skít í beðin.
Það hefur gengið illa hjá mér að komast í orgelið til að æfa mig. Mikið hefur verið að gerast í kirkjunni og ég hef verið upptekinn þegar orgelið hefur verið laust. Þetta er farið að pirra mig svolítið. Það fer að styttast í alla tónleikana og ég verð að fara að æfa mig meira. Svo er útvarpsmessa í beinni á sunnudag og ég verð að finna eitthvað gott til að spila þar.
Karrýið var skrambi gott, át yfir mig eins og venjulega. Annars hefur sykursýkin verið í mjög góðu lagi undanfarið. Þökk sé aukinni hreyfingu (skokkaði 5 km í dag) og bættu mataræði. Einnig sef ég aðeins meira núna en oft áður.
Jæja, beddinn bíður
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2006 | 16:17
Viti menn
Það fór næstum því eins og ég var hræddur um, þ.e. að ég myndi ekki endast meira en eina viku í að skrifa á síðuna. En nú er ég mættur. Fjandi góður dagur í dag. Kalt og hressandi úti. Gott að fá smá kulda, því það er nefnilega alltaf svo rosalega heitt og gott á Akureyri . Ég er kominn í vorskap, nenni ekki að vinna og langar mest í veiði. Ég er búinn að fá byssurnar mínar og búinn að prófa þær. Haglabyssan er snilld en ég þarf að fínstilla kíkinn á rifflinum.
Laugardagurinn var langur hjá mér, 18 tíma vinna. Stúlknakórinn var með æfingadag og eftir æfingu fórum við í Kjarnaskóg og grilluðum og fórum í fótbolta og leiki. Síðan gisti hluti kórsins hér í kirkjunni og ég var hjá þeim fram yfir miðnættið. Í einni pásunni spilaði ég svo í tveimur giftingum. Æfingin gekk rosalega vel og erum við að vera tilbúin fyrir Austurríkis-og Slóveníuferðina. Á fimmtudag ætlum við að hitta Önu, sem er slóvensk, en hún ætlar að hjálpa okkur með framburðinn á slóvenskunni. Í kvöld er ég að spila með Óskari P í afmæli á KEA hóteli og síðan tekur við kóræfing hjá kirkjukórnum.
Það er kannski best að koma sér heim og fara að elda. Það er sú besta afslöppun sem ég veit. Ég ætla að malla eitthvað gott heimatilbúið grænmetis- og kjúklingabaunakarrý. Namm! Ætli ég sleppi ekki hlaupabrettinu í dag. Það er ótrúlega magnað að hafa það svona heima hjá sér. Við erum komin með fína aðstöðu í kjallaranum, hlaupabretti, stigvélina hennar Margrétar, lóð og önnur líkamsræktartól. Sjónvarp fyrir framan og geislaspilarinn í eyrunum. Ef ég ætla ekki að drepast á fjöllum næsta haust í rjúpnaveiðinni, þá verð ég að hlaupa af mér öll hnévandræði. Svo hjóla ég allt sem ég þarf að fara þessa dagana.
Jæja Elvý, núna stóð ég við yfirlýsingar mínar frá í gær,
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)