13.4.2006 | 22:47
Erna virkjuð
Hæ
Ég held að ég hafi náð að virkja Ernu til að skrifa hér líka. Hún er nýkomin af kvöldvaktinni og ég var að koma í hús úr messu. Brynja kom svo inn stuttu seinna úr fótboltanum. Sá á RÚV lokin á einni bestu mynd sem ég hef nokkurn tímann séð, Whale rider. Snilldarmynd sem ég verð að leigja einu sinni en til að rifja aðeins betur upp. Ég er greinilega orðinn eftirbátur kvennanna á heimilinu í hreyfingu. Brynja spilaði fótbolta í allt kvöld, Erna barði boxpúðann eftir vaktina en ég..... lagðist í sófann og át ostbita og drakk rauðvín! Strengi heit hér með að auka við hreyfinguna. Ætla t.d. að hnýta eina flugu á laugardag :)
Eyþór
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2006 | 11:23
Spelt er snilld!
Ég er búinn að komast að því að ég get algerlega án hveitis verið og nú erum við búin að henda öllu hveiti og heilhveiti úr skápunum okkar. Spelti er það sem gildir. Sem sykursjúklingur finn ég mikinn mun, þar sem ég get búið til brauð úr grófu spelti eingöngu, án nokkurs fínmalaðs mjöls. Heimatilbúna pastað úr grófu spelti er líka mjög gott. Núna fáum við nýtt og gott brauð á hverjum morgni, þökk sé brauðvélinni okkar góðu. Eftir mikla leit af uppskriftum og síðar margar misheppnaðar tilraunir er ég kominn með góða uppskrift:
4 dl létt AB mjólk, skvetta af ólífuolíu, 1 egg, 6 dl gróft spelt, 3 tsk lyftiduft (eða ca 4-5 tsk vínsteinslyftiduft) 1 tsk salt, 2 dl fræ eða hnetur (fjölkornablandan frá Náttúru er mjög góð, líka gott að blanda sjálfur hinu og þessu saman, ýmsar hnetur eru góðar, pestó, tómatar, gulrætur, parmesan.....) Ég strái svo gjarnan Maldonsalti yfir þegar vélin er búin að hræra og byrjuð að baka.
Set þetta á stutt kerfi í vélinni og viti menn, úr þessu verður hið ágætasta brauð.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2006 | 10:53
Gúrkutíð
Helgi Már samstarfsmaður minn benti mér á þessa stórfrétt: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1195942
Söluandvirðið heilar 4050.-
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2006 | 10:46
Nýr á blogginu
Kæru félagar, nú þykist ég ætla að halda það út að vera með bloggsíðu. Hef reynt einu sinni áður, skrifaði eina færslu á þá síðu. Ég ákvað að vera heima hjá mér fram að hádegi til tilbreytingar. Það hefur verið brjálað að gera undanfarið og ég ekki sést mikið á heimilinu. Framundan eru páskarnir með allri vinnunni sem þeim tengist. Ég fer nú að hundskast á lappir og koma mér í vinnuna. Í kvöld er ég að spila í messu kl. 20.30. Morgundagurinn, föstudagurinn langi, er langur hjá mér, ég spila á klukkutíma fresti við lestur passíusálmanna. Þess á milli verð ég að æfa með söngvurum og reyna að koma lagi á skrifstofu mína sem er í rúst eftir stress undanfarinna vikna. Annað kvöld er svo kyrrðarstund við krossinn, og þar spila ég með öllum kirkjukórnum og Kristjönu Arngríms. Hugmyndin er svo að reyna að komast austur á Húsavík á laugardag. Ég er farinn að þrá að komast úr bænum og það verður fínt að komast til tengdafjölskyldunnar í einn dag. Ég er með mikið samviskubit yfir að hafa ekki komist í heimsókn til fjölskyldna minna undanfarið.
Sunnudagurinn verður svo eins og páskadagur hjá organistum og prestum er. Langur en hátíðlegur. Ætli ég fari ekki á lappir um 5 um morguninn, undirbúi messurnar og tek á móti kirkjukórnum kl. 07.30. Björg Þórhalls er líka að syngja um morguninn. Messan er kl 8 og strax eftir messu tek ég á móti Stúlknakórnum og læt þær syngja við Páskahláturinn, skemmtun í safnaðarheimilinu. Barnakórinn kemur eftir það og ég æfi síðan báða kórana fyrir fjölskyldumessuna kl. 11.
Vonandi verð ég duglegur við að blogga í þetta skiptið. Miðað við stressið undanfarið er þetta kannski eina leiðin fyrir fólkið mitt til að frétta af mér. Ég hef nefnilega ekki getað hringt mikið í vini og kunningja og hvað þá farið í heimsóknir.
Eyþór
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)