Færsluflokkur: Matur og drykkur

Vanillubrauð með sýrðum rjóma

Rosa gott brauð úr Brauðbiblíunni sem Hjörleifur sendi mér.  EKKI fyrir sykursjúka! (stalst samt til að smakka og þetta er úrvals brauð í staðin fyrir vöfflur á sunnudegi)

Vanillubrauð með sýrðum rjóma 

1 ¼ dl vatn

1 msk vanilludropar (má vera meira ef maður er mikill sælkeri)

Tæpur dl. Sýrður rjómi

1 egg

1 msk mjúkt smjör

7 dl hveiti

3 msk hrásykur eða síróp

1 ½ tsk salt

2 tsk þurrger

 

Bakið í brauðvél á “Sweet” eða “white” kerfi.  Ekki heppilegt að nota “delay” (standa yfir nótt). 

 


Gróft fjallagrasabrauð

 Ég hef verið að gera tilraunir með fjallagrasabrauð en aldrei verið ánægður með útkomuna.  Uppskriftin er í þróun.  Þetta gerði ég í dag og það bragðast bara ágætlega

Eyþór

Gróft fjallagrasabrauð 

4 dl mjólk

1 egg

1 msk olía

3 dl gróft spelt eða heilhveiti

5 dl fínt spelt eða hveiti

1 msk agave síróp eða hrásykur

1 msk þurrger

2 lúkur þurr fjallagrös

 

Leggja fjallagrösin í mjólkina og láta þau sjóða í 5 mínútur.  Mjólkin kæld þar til volgt.  Sett í skál ásamt eggi, olíu og sírópi.  Þurrefnum bætt við.

 

Venjulegt kerfi í brauðvél.


Bananahnetukanilrúllubrauð

Hjörleifur Hjálmarsson, kennari með meiru, er mikill snillingur.  Þessum góða vini mínum er marg til lista lagt.  Fyrir utan hvað er helvíti skemmtilegur, þá er hann góður bleikjuveiðimaður, söngvari og brauðgerðarmaður.

Hann sendi mér frábæra brauðbók á tölvutæku formi og nú hef ég verið að gera tilraunir og mun eflaust halda áfram að dæla uppskriftum hingað.

Þetta brauð er æðislegt!

 

Brauðið:

2 egg

2 msk  mjólk

1 stór og þroskaður banani, skorinn í 2-3 cm bita

1 ½ msk smjör

1 ½ msk hrásykur (ég nota Agave sýróp)

1 ½ tsk salt

7-8 dl hveiti

2 ¼ tsk þurrger

 

Smurningin:

1 ½ msk mjúkt smjör

3 msk púðursykur

¾ msk kanill

3 msk saxaðar pistasíur eða valhnetur

 

Brauðefni blandað saman hnoðað eftir kúnsarinnar reglum. Það síðan flatt út í hveiti á borði niður í ca 1 cm þykkt.  Smyrjið mjúku smjörinu á deigið. Blandið púðursykri, kanil og hnetum saman og stráið því yfir smjörið.  Rúllið svo deiginu upp og klemmið enda vel saman.  Látið standa undir handklæði í klukkutíma á heitum stað.

 

Bakið í 30-45 mínútur við 170°

Æðislegt volgt með smjöri

brauð

 Á myndinni er einnig svartbrauð, hér kemur uppskriftin:

Evrópskt svartbrauð 

2 dl vatn

1 tsk cider edik (eða annað ljóst edik)

3 ½ dl hveiti

1 ½ dl rúgmjöl

Tæpur dl. Haframjöl

1 msk smjör eða olía

1 ½ msk hrásykur eða agave síróp

1 tsk salt

1 tsk kúmen (einnig má nota fræblöndur og þá í meira mæli)

1 tsk steiktur laukur eða smá laukduft

2 msk ósætt kakóduft

1 tsk þurrger

 

Henda öllu í brauðvélina, vökvinn fyrst og gerið síðast.  Setja á venjulegt bökunarkerfi

 


Speltbrauð með döðlum og hnetum

Gerði smá tilraun í gær, notaði grunnuppskrift af speltbrauðinu (engin fræ) og setti slatta af döðlum og valhnetum út í.  Mig minnti svo að ég hefði einhverntímann heyrt að kanill væri góður með döðlum, en áttaði mig svo á því of seint, að kanillinn er góður í eplabrauð.  En brauðið varð bara fjandi gott með döðlum, valhnetum og 1 tsk kanil.

Eyþór


Spelt er snilld!

Ég er búinn að komast að því að ég get algerlega án hveitis verið og nú erum við búin að henda öllu hveiti og heilhveiti úr skápunum okkar.  Spelti er það sem gildir.  Sem sykursjúklingur finn ég mikinn mun, þar sem ég get búið til brauð úr grófu spelti eingöngu, án nokkurs fínmalaðs mjöls.  Heimatilbúna pastað úr grófu spelti er líka mjög gott.  Núna fáum við nýtt og gott brauð á hverjum morgni, þökk sé brauðvélinni okkar góðu.  Eftir mikla leit af uppskriftum og síðar margar misheppnaðar tilraunir er ég kominn með góða uppskrift:

4 dl létt AB mjólk, skvetta af ólífuolíu, 1 egg, 6 dl gróft spelt, 3 tsk lyftiduft (eða ca 4-5 tsk vínsteinslyftiduft) 1 tsk salt, 2 dl fræ eða hnetur (fjölkornablandan frá Náttúru er mjög góð, líka gott að blanda sjálfur hinu og þessu saman, ýmsar hnetur eru góðar, pestó, tómatar, gulrætur, parmesan.....) Ég strái svo gjarnan Maldonsalti yfir þegar vélin er búin að hræra og byrjuð að baka.

Set þetta á stutt kerfi í vélinni og viti menn, úr þessu verður hið ágætasta brauð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband