Hvað getur maður sagt:)

Kominn tími á að húsbóndinn á heimilinu fari nú að skrifa eitthvað haha já ég er húsbóndi á mínu heimili skal ég segja ykkurSvalur Allt fínt að frétta á núna bara eftir 18 vaktir af 44 vakta törn og verður það mikið gott þegar það er búið. Eyþór svaka duglegur búinn að vera vinna mikið og máluðum við íbúðina inn á milli aðallega Eyþór samt, mér var svaðalega flökurt að ég gat lítið gert versta sem ég veit er flökurleiki en hann er á undanhaldi þó vonandi. Já okkur hjónum fannst s.s. við ekki geta annað en viðhaldið þessum gríðarlega fríðleika sem einkennir okkur bæði og skutum því snarlega í einn lítinn erfingja sem er væntanlegur einhvern tímann árið 2007Saklaus

Núna sit ég og bíð eftir að svefn og heilsumennirnir komi með nýja flotta rúmið mitt sem við vorum að hamast við að safna fyrir og s.s. fáum það í dag...víí hlakka til að fara að sofa í kvöld, algerar gæðadýnur einhverjar geimdýnur, rándýrt samt rúmið 129.900 en við fórum í einhvern pott þar sem möguleiki er á því að við fáum tilbaka 100.000 kr og miðað við okkar heppni er það nú svo gott sem komið inn á reikninginnÞögull sem gröfin

Fór og hitti litla djásnið þeirra Sollu og Víðis í morgun, bara fallegust þessi stelpa með mikið dökkt hár og nokkrar unglingabólur snemmkomnar bara falleg, og hjónin svona sæl og glöð enda ekki annað hægt miðað við þessa þrennu sem þau eigaKoss

Hilla sys er að síga á seinnihlutann af sinni óléttu þannig að allar bumbur fara minnkandi nema mín bara fer stækkandi, finnst ekkert spes að vera ólétt en æði þegar það er búið, skil ekki konur sem dýrka að vera ólétta og sakna jafnvel bumbunnar ónei......

Brynja er á æfingu og svo er hún byrjuð í skólanum og er rosalega ánægð þar og gengur vel sem fyrri daginn, ætlar sér að sleppa tíunda bekk og fara beint í MA eða VMA þannig að sá hluti er ákveðinn.

Nenni ekki að röfla meira ætla að fara að fjárfesta í kvöldmat sem verður pylsur og pylsubrauð ekki óalgengur matur hér á bæ allavega einu sinni í viku.....letidagur er í fríi nenni ekki að elda.

Bið ykkur vel að lifa og hafið það gott þar til næst...

Sjúlli kveður með ofvöxt í bumbunni


BYKO á Akureyri

Guð minn góður hvað þjónustan er léleg þar.  Og ekki skánaði hún við að fara í nýtt hús.  Skelfilega leiðinlegt starfsfólk og yfirleitt óliðlegt þegar maður loksins fær einhverja hjálp.  Svo sitja 5 ljóskur á kassa og dunda sér á MSN þótt ekkert sé að gera í afgreiðslu.  Væri ekki nær að nota starfskraftana inni í versluninni til að aðstoða kúnnann.   Farið í Húsasmiðjuna.  Einn til tveir í kassaafgreiðslu eru mun sneggri en 5 í Byko og starfsfólkið í búðinni er frábært.  Maður fær svo góðan afslátt ef maður er í reikning og þar að auki fer maður alltaf með rétta hluti heim vegna þess hve maður fær faglega hjálp í búðinni. 

Jæja

Ágúst var mánuður breytinga á íbúðinni okkar.  Eftir tónleikaferð til Reykjavíkur og dásamlega vel heppnaða hálendisferð (hjá Eyþóri og Nonna) ákvað kallinn að taka hæðina í gegn.  Stofurnar, gangurinn og elhúsið var málað og gluggarnir lakkaðir.  Borðstofusettið seldum við og fengum við það pláss sem við höfum ekki séð lengi.  Við vorum eiginlega að kafna í húsgögnum áður.  Við léttum einnig mikið á íbúðinni með því að minnka drasl á veggjum og gólfi.  Við skiptum einnig um ljós og gardínur og núna erum við orðin mjög ánægð með hæðina. 

Tónleikarnir í Hallgrímskirkju gengu ágætlega.  Ákveðin þreyta gerði vart við sig á seinni tónleikunum en eftir vel heppnaða hvíld á fjöllum með pabba er orkan komin til baka.  Við feðgarnir áttum alveg hreint frábæra daga.  Við fórum frá Akureyri í Mývatnssveit og þaðan keyrðum við frá Grænavatni í Suðurárbotna og þaðan í Dyngjufell, þar sem við gistum.  Veðrið var frábært alla dagana.  Næsta morgun fórum við lengra í suður, í gegn um Dyngjufjalladal og inn á Gæsavatnaveginn og fórum svo í Dreka með nokkrum stoppum þó.  Þaðan keyrðum við í Kverkfjöll og gengum á jökulinn.  Útsýnið var frábært og það var gaman að klöngrast um skriðjökulinn.  Við gistum við rætur Dyngjufjalla að austanverðu um nóttina.  Næsta dag ókum við síðan yfir flæðurnar undan Dyngjujökli, yfir Urðarfell (réttnefni) og fórum í Kistufell.  Eftir gæðastund á kamrinum þar héldum við enn lengra í vestu, í Gæsavötn og svo þaðan niður í Eyjafjörð.  Þótt við keyrðum mikið náðum við samt að skoða margt.  Ég fann t.d. gil í Eyjafjarðardrögum með ótrúlegum kynjamyndum í klettum.

Brynja er byrjuð í skólanum sínum og Rakel einnig í sínum skóla í Svíþjóð.  Við vorum alls ekki ánægð með umsjónarkennara Brynju til að byrja með.  Við Erna erum mjög andvíg skoðunum Snorra í Betel en eftir foreldraviðtalið ákváðum við að hann yrði að fá að eiga sínar skoðanir í friði.  Það er alls ekki þar með sagt að hann sé að troða þeim inn á krakkana.  Hann er einnig eflaust góður kennari.  En ég sætti mig aldrei við að hann boði sína öfgafullu trú í bekknum.  Ég er á þeirri skoðun að einn kunningi minn sem nú er látinn gæti verið enn á lífi ef hann hefði ekki verið svo óheppinn að vera samkynhneigður Hvítasunnumaður.  Ekki óheppinn að vera samkynhneigður, heldur þetta tvennt saman.  Og ekki orð um það meir.  Ég einlægur stuðningsmaður þess að samkynhneigð pör sem eru ástfangin og búa saman fái öll réttindi á við gagnkynhneigða, þ.m.t. rétt til að giftast í kirkju og ættleiða börn.  Við höfum lokað augunum allt of lengi fyrir mannréttindabrotum sem samkynhneigðir eru beittir.  Ásamt gömlu fólki. 

Hymnodia tók upp raddir við 13 lög Gunnars Þórðarsonar um síðustu helgi.  Óskar Pétursson er að fara að gefa út plötu með lögum kappans.  Kórinn syngur með í flestum laganna.  Það er margt spennandi framundan hjá kórunum mínum og núna í haust tek ég við kirkjukórnum líka.  Það lítur út fyrir að vera mikið að gera í vetur en jafnframt afar skemmtilegt.

Erna vinnur eins og vitleysingur þessa dagana.   Hún fær reyndar frí í einn dag núna á fimmtudag.  Hún fer stækkandi þessa dagana og heldur því áfram næsta hálfa árið........ Mikil gleði í Munkanum Glottandi

kveðja úr Munkaþverárstræti 1 (Mér finnst þetta svo flott götunafn, nota það sem oftast!)

Eyþór


Fullt af nýjum myndum

Það er lítið um færslur þessa dagana, en kíkið á myndirnar


Lífið maður minn

Loksins komin í frí...verð nú að viðurkenna að ég var alveg að springa á limminu í gærkvöldi...búin að vinna einhverjar 13 vaktir á hvað 8 dögum eða eitthvaðGráðugur En allavega komin í fjögurra daga helgarfrí "vonandi" og byrja það á því að fara og láta skafa hárið af hausnum á mér, alveg kominn tími á það. Eyþór og Rakel fara suður í kvöld og Rakel út á morgun...þessi tími hennar hér er alltaf alveg ótrúlega fljótur að líða því miður...en jólin koma bráðumKoss Eyþór er svo að fara að halda tónleika í Hallgrímskirkju á laugardag og sunnudag og kemur því heim á mánudagsmorgun, þannig að við Brynja verðum einar um helgina. Ætlum nú að fara á handverkssýningu á Hrafnagili og svo er hún að keppa á laugardag og svo bara afslöppun út í eitt.

Nýbyrjuð í sjúkraþjálfun aftur eftir sumarfrí hjá þjálfaranum mínum. Þessi háls á mér er ekki alveg að gera sig...fer snarversnandi. Skrýtið fann lítið fyrir honum eftir áreksturinn í fyrra en svo núna fyrir nokkrum mánuðum er þetta að snarversna held varla haus á köflum. En fer 2-3 í viku núna í nokkrar vikur ætlar að reyna að fixa þetta eitthvað til, er svo yfirhreyfanleg í hálsinum og einnig komin líklega með slit eftir þetta allt saman...hmmm hvað er ég eiginlega gömul...Þögull sem gröfin

Annars er allt gott að frétta Solla mín og Víðir eignuðust litla stúlku í byrjun mánaðar og ég hef enn ekki haft tíma til að kíkja til þeirra, búin að skoða myndir en ætla nú að bruna til þeirra um helgina og kíkja....hlakka til algjör rúsína af myndum að dæmaHissa 

Hef frekar lítið að segja þar sem ég er búin að vera eiginlega úr sambandi síðan löngu fyrir versló en er á leið í samband aftur. En verður stutt byrja á 16 vakta törn á mánudaginn og tek það á 8 dögum djösss verð ég rík.....erum að safna okkur upp í rúm getum staðgreitt það takið eftir um næstu  mánaðarmót og svo um þarnæstu verður það ísskápur vonandi staðgreiddur líka ekkert kortavesen sko...hahahah

Hætt að bulla

Sjúllinn kveður á leið í rúning


Nýjar myndir

Við erum alltaf að bæta inn myndum.  Kíkið á þær.  Ég er svo skapvondur eftir verslunarmannahelgarhátíðina Eina með öllu (nauðgunum, skemmdarverkum og líkamsmeiðingum) að ég ætla að bíða með að blogga í einhverja daga í viðbót.  Annars yrði það ein alsherjar skammar- og svívirðingaræða

Eyþór


Æfingadagur

Ég er búinn að vera sérlega duglegur að æfa mig í dag.  Ég er að undirbúa tónleika í Hallgrímskirkju um aðra helgi, en einnig verð ég með smá tónleika hér á Akureyri á sunnudag.  Erna er í fríi í dag og er að njóta sólarinnar.  Í fyrradag tók ég mér frí og fór ég með stelpurnar um morguninn í skoðunarferð að Gásum.  Síðan fórum við í fjöruna á milli Gása og Hörgár og drukkum þar heitt kakó og borðuðum kleinur.  Á Gásum komumst við að því að kærkiberin eru orðin svört og bara nokkuð þroskuð.  Stelpurnar fóru svo á hestbak eftir hádegið.  Þær riðu eitthvað um bakka Eyjafjarðarár.  Ekki voru þær alveg sáttar með hestana sem þær fengu á hestaleigunni.  Háfgerðar truntur samkvæmt lýsingum þeirra.  Eftir útreiðatúrinn fór fjölskyldan í sund á Þelamörk.  Brynja fór svo í bíó með vinum sínum en við hin fórum út að borða á Pengs.  Maturinn þar er mjög góður og er þetta einhver besti kínverski staður sem ég hef farið á.  Í gær var vinnudagur en Rakel fór með afa sínum og ömmu úr Borgarnesi til Húsavíkur og Brynja fór í fótbolta.  Erna og Brynja keyptu sér nýja gemsa í gær.  Þær eru ógulega svalar með samlokusíma núna.  Ég er að bíða eftir söngvara sem ég ætla að æfa með fyrir brúðkaup um helgina.  Það er bara eitt að gera í stöðunni, fara niður tröppurnar og fá sér einn bjór í sólinni.

sæl að sinni

Eyþór


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband